140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[13:49]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Vegna umræðu um skuldir held ég að rétt sé að byrja á því að segja að hreinar skuldir ríkissjóðs eru um 43–45% af vergri landsframleiðslu. (Gripið fram í: Það voru 35 …) Já, við tökum ítarlegri skuldaumræðu í fjárlaganefnd.

Varðandi safnliðina og regluverk í kringum þá er eitt af þeim málum sem við munum taka fljótlega upp í fjárlaganefnd á komandi vetri að ganga frá því að hægt sé að gera viðeigandi breytingar því að í frumvarpinu eru sumir af þessum liðum inni þó að þeir eigi að vera úti. Við munum leggja fullt kapp á það þannig að þeir sem notið hafa þessara fjármuna viti með hvaða hætti þeir eigi að sækja um. Reglurnar liggja í megindráttum fyrir, það þarf bara að setja þær í endanlegt form.