140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:07]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Því miður er reynsla mín í fjármálanefnd, þótt ekki sé löng, sú að það er mjög erfitt að snúa við þeim tillögum sem eru í frumvarpinu þegar það er lagt fram. Þess vegna er ég ekki sérlega bjartsýnn á framhaldið í þessu máli en veit að hv. formaður fjárlaganefndar á erfitt verk fyrir höndum og að sjálfsögðu munum við leggja til málanna eins málefnalega og hægt er hvar við teljum að eigi ekki að skera frekar niður.

Hv. þingmaður minntist í fyrra andsvari sínu á skuldastýringu ríkissjóðs í heild sinni. Þar hef ég tekið til máls oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í fjárlaganefnd og í þessum þingsal og bent á að skuldastýring ríkissjóðs, eins og henni er komið fyrir í Seðlabanka Íslands, er ekki með þeim hætti sem best gerist innan OECD.

Eina landið sem er með skuldastýringu síns ríkissjóðs í seðlabanka er Danmörk. Að vísu er því þannig fyrirkomið í Noregi líka en þar skiptir það engu máli því að Norðmenn þurfa ekki að taka nein lán. Hjá OECD er Danmörk notað sem dæmi um það hvernig skuldastýringu ríkissjóðs á ekki að vera fyrir komið. Það eru ekki ýkja mörg ár síðan þáverandi fjármálaráðherra Árni Mathiesen lagði niður Lánasýslu ríkisins að undirlagi skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu og færði hana inn í Seðlabanka Íslands með alls engum rökum og var aldrei hægt að sjá neitt á bak við það hvers vegna það var gert.

Trúverðugleiki ríkissjóðs Íslands út á við mundi batna til muna ef skuldastýring ríkissjóðs yrði færð í það faglega horf sem hún er í í nágrannalöndunum. Þá segi ég ekki að hún sé ófagleg á Íslandi en hún væri einfaldlega í miklu betri stöðu ef hún væri annars staðar en í Seðlabankanum.