140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi í upphafi taka undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni sem vék að því áðan að æskilegt væri að breyta fyrirkomulagi um fjárlagaumræðu þannig að sá háttur væri hafður á að ráðherrar einstakra málaflokka sætu fyrir svörum um áform sem snerta málaflokka þeirra. Ég minnist þess reyndar að á síðasta hausti og að ég hygg fyrir tveimur árum voru svokallaðir fagráðherrar eða ráðherrar annarra málaflokka en fjármála, flestir viðstaddir mestan hluta umræðunnar. Hæstv. ráðherrar hafa hins vegar fáir sést í þessari umræðu. Ég vek athygli á nærveru hæstv. utanríkisráðherra núna og hæstv. velferðarráðherra áðan (Utanrrh.: Og í dag.) og hæstv. iðnaðarráðherra var hér líka, en þó hafa hæstv. ráðherrar verið fjær þessari umræðu í dag en þeir hafa verið undanfarin ár. Það setur auðvitað svip á umræðuna vegna þess að á síðasta ári og að ég hygg fyrir tveimur árum, sköpuðust oft áhugaverðar umræður, fyrirspurnir og svör þegar einstakir þingmenn viku að málaflokkum einstakra ráðherra. Umræðan varð gagnlegri fyrir vikið. Ég vildi í upphafi nefna þetta við hæstv. forseta og taka undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni sem hefur úr ræðustól þingsins orðað hugleiðingar um breytt fyrirkomulag sem ég tel að við þyrftum að skoða.

Þetta skiptir máli vegna þess að í fjárlagafrumvarpinu ræðum við auðvitað bæði hina stóru mynd og eins smærri liði. Einstakir ráðherrar hafa stöðu sinnar vegna forgöngu um stefnumörkun á sérsviðunum og eru þess vegna betur til þess fallnir en aðrir að greina frá því hvaða sjónarmið búa að baki tillögugerð á einstökum sviðum. Nóg um það.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þá umræðu sem hér hefur átt sér stað um hagvaxtarspár og forsendur fjárlaga. Ég ítreka bara það sem áður hefur komið fram, að þær forsendur sem frumvarpið byggir á kunna að breytast verulega þegar nýjar spár, hugsanlega byggðar á nákvæmari og nýrri gögnum um afkomu og útkomu þessa árs, liggja fyrir, hugsanlega um mánaðamótin október/nóvember. Margt í þessari mynd kann því að breytast. Bent hefur verið á að sú hagvaxtarspá sem frumvarpið byggir á sé bjartsýn miðað við margar aðrar spár. Þótt ég gangi ekki út frá því að nýrri spár Seðlabankans séu endilega réttari en spá Hagstofunnar frá því í sumar, þurfum við að hafa þetta atriði í huga og það getur breytt æðimörgum þáttum, hæstv. forseti, bæði hvað varðar tekjur og gjöld ríkisins.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna það sem er auðvitað grundvallaratriði í þessu sambandi. Ef við viljum sjá betri afkomu ríkissjóðs til lengri tíma, er eina langtíma varanlega leiðin fyrir hendi að stækka kökuna; auka hagvöxt, auka framleiðslu, auka útflutningsverðmæti og fjölga störfum. Ef við náum ekki að stækka kökuna sem til skiptanna er, verðum við áfram í vanda með ríkisfjármálin.

Það kann að vera að til skamms tíma geti menn bjargað sér áfram í ríkisfjármálunum með því að hækka skatta eða skera niður á einhverjum póstum, en til lengri tíma er forsenda þess að við getum haldið uppi öflugu ríkiskerfi, að við getum haldið uppi því velferðarkerfi og menntakerfi sem við viljum, og öðrum þáttum ríkiskerfisins sem við viljum standa vörð um, að til verði meiri verðmæti í þjóðfélaginu, fleiri störf, fleiri fyrirtæki sem skila hagnaði og svo má lengi telja.

Því miður er ekki margt í fjárlagafrumvarpinu til þess fallið að stuðla að slíku. Hér fyrr í umræðunni í dag tók hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, líkingu úr ævintýrum Münchhausens baróns sem reyndi að hífa sig upp úr dýi (PHB: Og það tókst.) á hárinu (Utanrrh.: Já, honum tókst það.) og tókst, enda voru honum leiðir færar sem okkur flestum eru ómögulegar. En það að ætla að skattleggja sig út úr kreppu eða skera niður til að ná sér út úr kreppu, er líkt því að reyna að hífa sig upp á hárinu. Leiðin hlýtur að vera sú að ýta undir hagvöxtinn, ýta undir fjölgun starfa, fjölgun tækifæra, stofnun nýrra fyrirtækja, efla fjárfestingu. Það hlýtur að vera leiðin. Þetta fjárlagafrumvarp ber ekki með sér að sú stefna sé ríkjandi af hálfu núverandi ríkisstjórnar, því miður.

Hvað er það sem ríkisstjórn getur gert til að örva atvinnulífið? Hvað getur ríkisstjórn gert til að stuðla að bættu starfsumhverfi fyrirtækja? Það er margt. Ríkisstjórnir geta ekki gert kraftaverk, hvorki sú sem hér situr né annars staðar, þær ráða ekki öllum hlutum, en þær geta gert ákveðna hluti sem hafa áhrif í þessu sambandi. Skattamál eru augljóst dæmi. Með ákvörðunum á sviði skattamála, með skattalegum aðgerðum, er hægt að örva fjárfestingu, ýta undir fjárfestingu og ýta undir verðmætasköpun. Ekkert í núverandi fjárlagafrumvarpi gefur til kynna að sú sé stefnan. Þvert á móti er haldið fast við skattahækkanir undanfarinna ára, ef frá er talin breyting á tryggingagjaldi í samræmi við áætlaða fjárþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs. Annað stendur af skattahækkunum fyrri ára sem m.a. koma niður á fjárfestingu, draga úr hvatanum til fjárfestingar. Það liggur fyrir. Það er reyndar bætt í skattlagninguna á ýmsum sviðum eins og bent hefur verið á.

Hæstv. forseti. Ég velti því fyrir mér í gær, í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra, hvaða áhrif tilteknar skattbreytingar hafa — ég þori varla að segja skattahækkanir eftir umræðurnar fyrr í dag — þegar krónutölugjöld eru hækkuð í samræmi við áætlaðar verðlagsbreytingar í landinu, hvort um skynsamlega stefnu sé að ræða, hvort við séum, eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson benti á, að búa til einhverja eilífðarvél. Krónutölur eru hækkaðar á ýmsum gjöldum í samræmi við verðlagsbreytingar en hækkun krónutölugjaldanna veldur síðan frekari verðlagsbreytingum. Eins og ég nefndi í gær, hæstv. forseti, sýnist mér að krónutölubreytingarnar í núverandi fjárlagafrumvarpi geti hækkað vísitölu um 1%. Það hefur umtalsverð áhrif á t.d. útreikning á lánum heimila í landinu.