140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum fjárlagafrumvarp hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar og eins og alltaf fer umræðan yfir nokkuð vítt svið. Þetta hefur verið mjög góð umræða í dag, finnst mér, og töluvert málefnaleg.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði í ræðu sinni að hann hefði tekið við erfiðu búi og það efast enginn um það. Hann sagði líka uppáhaldssetninguna sína: „Þetta er erfitt og það stóð ekki annað til.“ Það er uppáhaldssetning hans þessa dagana. Hann er þar með að segja að hann beri ekki mikla ábyrgð á þessu sjálfur, hann hafi bara tekið við þessu svona og svona sé þetta.

Vissulega er góður vilji, ýmislegt hefur náðst fram, svo maður sé á jákvæðu nótunum svona til að byrja með, vextir eru lágir. Ég man ekki eftir þeim svona lágum, alla vega ekki á innlánum, ég hef aldrei nokkurn tíma séð svona lága vexti á innlánum, 2,5%, sem er stórtap fyrir þá sem eiga innlánin í 5% verðbólgu sem fer vaxandi og svo þessi 2,5% sköttuð með 20% þess utan, þannig að tapið er skattað svona til að hjálpa þeim til að láta þetta brenna upp.

Verðbólga er líka mjög lág burt séð frá því skoti sem nú er að koma sem er eitthvað sem menn hefðu ekki búist við. Atvinnuleysið er líka orðið þokkalegt — ég segi það nú ekki en það er betra en það var — o.s.frv. Þetta lítur allt nokkuð vel út. Maður kynni að halda ef maður lítur á þessa tölur að þetta sé bara allt í sómanum. En ef ég nefni þetta síðasta, atvinnuleysið, þá hafa náttúrlega mjög margir Íslendingar farið til útlanda í vinnu. Maður veit ekki nákvæmlega hve margir Íslendingar þetta eru en það er einhver tugur þúsunda. Síðan hafa stórir herskarar farið í nám, sennilega svona 5 eða 10 þúsund. Og svo er annað að gerast líka, frú forseti, sem er dálítið dulið. Um daginn var talað um einhverja pípara sem væru að vinna í Noregi á íslenskum launum hjá íslensku verktakafyrirtæki og hvað er með það fólk? Það er ekki atvinnulaust á Íslandi, það er ekki að vinna á Íslandi, það er að vinna í útlöndum. Það er ekki flutt til Noregs þannig að það er ekki talið með í því. Það er ekki að flytja út, það er ekki atvinnulaust og það er ekki á vinnumarkaði en þetta eru samt sem áður vinnufúsar hendur sem þarna starfa þannig að þessi vandi er enn stærri en hér er sagt. Það skyldi nú ekki vera að sú fallega mynd sem hæstv. fjármálaráðherra dregur af þessu, að þetta sé allt að nást og allt að hafast, sé dálítið skekkt?

Sagt er að það sé ekki aukning í skattlagningu á einstaklinga, markmiðið sé að skattleggja fyrirtækin og það er eins og að hagur fyrirtækja komi einstaklingum ekkert við. Vissulega má segja að bankarnir séu með mjög mikinn hagnað og hann er innbyggður inn í kerfið. Þannig var það gert á sínum tíma. Þegar þeir voru settir undir gömlu bankana var meiningin að þeir færu með digra afskriftasjóði sem kæmu síðar fram í hagnaði því að annars hefðu kröfuhafarnir aldrei fallist á svona mikla afskriftasjóði. Það vantar alveg inn í þá umræðu að ef sú leið hefði ekki verið farin þá stæðum við sennilega í 10 ára málaferlum við kröfuhafana um hvað afskriftasjóðurinn ætti að vera stór. Þeir mundu vilja hafa hann eins magran og lítinn og hægt er og við hins vegar hafa hann stóran til að bankarnir væru starfhæfir.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði líka að hann gæti ekki ákveðið að það verði hagvöxtur eða að það verði atvinna og það er á vissan hátt rétt. En þá kemur nefnilega að umræðunni um stefnuna eða hvernig menn líta á hlutina, málefnin. Hv. þm. Helgi Hjörvar hefur sagt nokkrum sinnum að menn megi ekki vera svona svartsýnir, það liggur við að honum líði illa þegar stjórnarandstæðingar eru að tala, ég hef ekki verið svartsýnn fram að þessu í ræðunni en núna fer það kannski að gerast. Við erum nefnilega að stefna í ákveðna kyrrstöðu. Fjárfestingin er í hættulegu lágmarki og þó að ekki sé verið að auka skatta á einstaklinga þá er búið að því. Það er búið að auka skattana og þeim er haldið áfram, fólki er haldið áfram í spennitreyju, fyrirtækjum og einstaklingum er haldið í spennitreyju. Sérstaklega gerðu menn þau mistök að skattleggja allt sem heitir fjárfesting. Það var skattlagning á tryggingagjaldið, það var skattlagning á atvinnu, fjármagnstekjuskattur var hækkaður, ekki hvetur það til atvinnusköpunar. Hagnaðarskattur fyrirtækja var hækkaður, ekki stofna menn þá fyrirtæki frekar. Það er eins og allt hafi verið gert til að reyna að stöðva fjárfestingu og það virðist hafa tekist því miður, því að það er ekki hægt að auka atvinnu með neinum öðrum hætti en fjárfestingu, ekki er mér kunnugt um það.

Ef okkur tekst að breyta einum atvinnuleitanda í vinnandi mann græðir ríkissjóður 3 millj. á einum manni af því að hann borgar minni bætur og fær hærri skatttekjur frá atvinnulífinu, annars eru þetta bara bætur og skattar af þeim fara í hring. Það er því allra hagur að auka atvinnu og þá finnst mér að menn eigi að skoða allar leiðir til að auka atvinnu. Ein er sú t.d. að skattleggja séreignarsjóðina, eins og við sjálfstæðismenn lögðum til, og fella niður alla skatta sem hafa hamlað atvinnulífinu, fella niður alla skatta vinstri stjórnarinnar. Það væri hægt í eitt og hálft ár og það er kannski nægilegt start til að setja allt í gang, auka kvótann um 30 þús. tonn, virkja eins og mögulegt er, líka í neðri hluta Þjórsár. Það er svo mikilvægt að koma öllu í gang núna því að annars lendum við í hættulegri stöðu, kyrrstöðu sem við komumst aldrei út úr aftur. Það er mjög mikil hætta á því og mér sýnist allt stefna í það.

Svo á ríkið heilmiklar eignir, mjög stórar eignir, og það hefur lítið verið rætt um að selja þær, t.d. Landsvirkjun. Nú er búið að setja lög um að ríkið megi ekki afsala sér virkjunarrétti lengur en í 65 ár. Ég sting upp á því t.d. að stofnað verði hlutafélag, Kárahnjúkavirkjun hf., sem fengi leigða orkuna úr Jöklu í 40 ár með þessum kjörum — ég ætla að biðja fjármálaráðherra að hlæja ekki að hugmyndinni fyrir fram — (Gripið fram í.) og síðan fengi það leigðar virkjanirnar, stöðvarhúsið, jarðgöngin og allt heila klabbið, það tæki yfir alla samninga við kaupendur raforku þegar búið er að stofna svona fyrirtæki og taki yfir líka hluta af skuldunum, af Landsvirkjun. Síðan yrði fyrirtækið selt bara hverjum sem hafa vill, t.d. einhverjum útlendingi, t.d. samkeppnisaðila álversins á Reyðarfirði sem gjarnan vildi hafa meiri tök á þeim. Þetta fyrirtæki yrði bara selt og þar með afnotarétturinn og eftir 40 ár, frú forseti, kæmum við aftur og stofnuðum Kárahnjúkavirkjun 2 og seldum þetta allt aftur og þá er það skuldlaust. Svona mætti gera við Kárahnjúkavirkjun, svona mætti gera við Þjórsárvirkjanirnar og reksturinn á Landsvirkjun og mér sýnist að með þessum hætti væri hægt að gera ríkissjóð nánast skuldlausan fyrir utan það að svona rekstur er alltaf með áhættu, jafnvel raforkuvirki eru með áhættu. Það getur eitthvað gerst í heiminum sem breytir því að þessi orka sé svona verðmæt, það er alltaf áhætta og ég held að ríkissjóður eigi ekki að vera að leika sér með svona áhættu.

Svo eigum við að sjálfsögðu að selja bankana. Hæstv. fjármálaráðherra hefur reyndar verið duglegur við að einkavæða þá þannig að þeir eru nánast einkavæddir, en það má selja Landsbankann og það má selja þessa banka sem allra fyrst. Svo á ríkissjóður fullt af öðrum fyrirtækjum, sem erfitt er að fá upplýsingar um nú til dags, í gegnum alls konar eignarhaldsfélög en mér sýnst að hægt sé að selja þar nokkuð mörg. En til að hægt sé að selja, frú forseti, þarf að vera bjartsýni í þjóðfélaginu. Ef planið yrði lagt upp svona að við ætlum að lækka skatta, ætlum að fara að selja þessi fyrirtæki, hafa ríkissjóð skuldlausan eftir jafnvel fjögur ár eða þrjú ár þá kemur bjartsýnin inn í atvinnulífið, þá kemur bjartsýnin í fólkið. Svo þarf að breyta einu, það þarf að breyta því sem olli því að fyrirtækin voru holuð að innan. Það þarf að breyta því að menn geti stofnað fyrirtæki í hring. Því hefur ekki verið breytt og því þarf að breyta. Ef því er breytt er hugsanlegt að almenningur fari aftur að fjárfesta í hlutafélögum og hlutabréfum. Mér finnst að menn eigi að gera þetta, menn eigi að gefa þjóðinni von og segja: Nú ætlum við að fara upp úr þessari kreppu, upp úr þessari kyrrstöðu og fara að gera eitthvað af viti. Þetta er hugmyndafræði, frú forseti. Þetta er hugmyndafræði og ekkert karp.