140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[13:54]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt, ég held að hv. þingmaður hafi einmitt orðað það þannig að hún hefði ekkert gildi. Ég er þeirrar skoðunar að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla hafi mikið leiðbeinandi gildi fyrir Alþingi og hún hafi mjög mikið siðferðilegt gildi fyrir Alþingi, en hún hefur ekki stjórnskipunarlegt gildi, það er alveg rétt. Það er ekki það eina sem mönnum ber að hafa í huga í þessu máli. Að sjálfsögðu ber alþingismönnum að velta fyrir sér áliti þjóðarinnar á málum, skárra væri það nú ef þeir gerðu það ekki. Þeim ber ekki stjórnarskrárleg skylda til að taka tillit til þess álits. Ég mundi ætla að hver einasti þingmaður velti því fyrir sér sérstaklega í svo stórum málum hvert álit þjóðarinnar væri. Það er illa komið fyrir Alþingi ef þingmenn fara að hegða sér algjörlega gegn vilja þjóðarinnar í mörgum málum.

Við höfum líka í samræmi við þetta lagt fram frumvörp um þjóðaratkvæðagreiðslur og notkun almennra þjóðaratkvæðagreiðslna. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu, drögum að stjórnarskrá, að beint lýðræði sé notað í meira mæli vegna þess einmitt að hluti af því vandamáli sem við stöndum frammi fyrir er að breið gjá hefur myndast milli þings og þjóðar. Þetta er ein aðferð til að brúa þá gjá þannig að þing og þjóð vinni meira saman að þeim brýnu málefnum sem þjóðin stendur frammi fyrir og hefði náttúrlega þurft að vera komið inn í stjórnarskrá fyrir lifandis löngu að almenningur gæti haft meiri áhrif á gang mála en einfaldlega á fjögurra ára fresti.

Ég þakka að lokum orð þingmannsins og allra sem hafa tekið til máls og vona að þetta mál fái farsælan endi.