140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[14:09]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Þegar mér bárust drög að þessari þingsályktunartillögu og mér bauðst að gerast meðflutningsmaður að henni var ég eiginlega á báðum áttum. Ég styð hana heils hugar en ég vil meina að við séum með ágæta löggjöf um neytendavernd á fjármálamarkaði, það sé bara ekkert farið eftir henni. Það er svolítið eins og staðan var fyrir hrun í almennri löggjöf á fjármálamarkaði. Við vorum með fínar reglur og ágæta verkferla en það fór enginn eftir þeim. Það var ekki fyrr en það kom að bankaleyndinni sem menn fóru hreinlega að oftúlka lögin og gera bankaleyndina enn meiri þannig að ekki þyrfti að segja frá neinu.

Ég hef átt sæti í viðskiptanefnd og svo hef ég verið áheyrnarfulltrúi í efnahags- og skattanefnd og hef skoðað þessi mál svolítið síðan ég settist á þing. Einhver sá vandræðalegasti nefndarfundur sem ég hef verið á var í annarri hvorri þessara nefnda þegar við vorum að fjalla um lög um vexti og verðtryggingu og neytendavernd vegna útreikninga á gengistryggðum lánum. Við fengum bæði Neytendastofu og Fjármálaeftirlitið þar sem hvor stofnun um sig hefur hlutverki að gegna en þær bentu hvor á aðra. Eftir að hafa skoðað lögin var ég reyndar sannfærð um að Neytendastofa átti ekki að hafa eftirlit með vöxtum, það átti Fjármálaeftirlitið að gera, en Fjármálaeftirlitið benti á Neytendastofu þannig að okkur varð fullkomlega ljóst að enginn hafði eftirlit með framfylgdinni. Hins vegar hefur umboðsmaður skuldara komið sterkur inn en þó ekki nógu sterkur að mínu mati og mér þykir hann kannski skorta valdheimildir til að geta beitt sér. Það er ekki nóg að fólk sé allt af vilja gert.

Í desember 2010 setti Alþingi afturvirk lög. Við ætlum einmitt að fjalla hérna í næsta máli um þá lagasetningu í kjölfar þess að gengislán voru dæmd ólögmæt og það þurfti að endurreikna þau. Ég ætla að fjalla betur um það mál allt á eftir, en með henni finnst mér neytendaréttur hreinlega hafa verið svívirtur. Ég er aðili að kvörtun til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, þar sem við kvörtum yfir afturvirkninni og líka yfir verðtryggingunni. Ég hef verið í sambandi við sérfræðinga í Evrópurétti, evrópska lögfræðinga, sem eiga hreinlega ekki til orð yfir því að við höfum innleitt allar tilskipanir um þessi mál en það sé eins og þær gildi ekki fyrir íslenskum dómstólum.

Ein áhugaverðasta spurningin í dag finnst mér vera hvort verðtrygging á neytendalánum standist hreinlega þá löggjöf sem við höfum innleitt frá ESB því að verðtrygging er í raun og veru bara eins og flóknir afleiðusamningar. Það er ekki hægt að gera þá kröfu til neytenda, venjulegs fólks, að það geti séð hvað það á að borga eftir 25 ár skrifi það undir verðtryggt lán. Mér finnst þetta mjög mikilvæg spurning og nokkuð sem við þurfum að skoða.

Ég ákvað að styðja þessa tillögu þótt ég vilji meina að við höfum ágætar reglur, það er bara ekkert farið eftir þeim.