140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

reglur um ársreikninga og hlutafélög.

[14:04]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get glatt hv. þingmann með því að rifja það upp að í lagabreytingum sem gerðar voru eftir hrun á útmánuðum 2009 var gripið til lagabreytinga sem hertu mjög reglur í kjölfar hrunsins, takmörkuðu m.a. möguleika banka til að lána í kaupum á sjálfum sér, takmörkuðu mjög möguleika á árangurstengdum launagreiðslum o.s.frv. Það er langur listi af umbótaverkefnum sem þá var ráðist í sem skiptu mjög miklu máli.

Einnig liggur fyrir skýrsla nefndar sem fengin var til að meta áhrif hrunsins á reglur um endurskoðun, ársreikninga og annað slíkt og við búumst við frumvörpum á þessu þingi til að hrinda ýmsum ábendingum þar í framkvæmd.

Um alla Evrópu er verið að taka á slíkum þáttum því þetta voru þættir, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, sem voru ekki séríslensk fyrirbæri heldur ósiðir sem tíðkuðust í fjármálastarfsemi víða um lönd þar sem skuldsettur bankarekstur var meginregla en ekki undantekning. Við vorum svo óheppin að allir íslensku bankarnir voru reknir á þessu sama módeli. Blessunarlega er það þannig í öðrum löndum að þar hafa aðrar fjármálastofnanir reynst reknar á tryggari grunni og því náð að standa af sér erfiðleika. En unnið hefur verið af miklum krafti að úrbótum að þessu leyti og við munum halda því áfram. Hér kemur skýrsla mjög fljótlega inn í þingið um frekari úrbætur á fjármálamarkaði sem þingið getur einnig tekið afstöðu til.