140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

salan á Byr og SpKef.

[10:48]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður er við sama heygarðshornið. Hann hefur verið í þeim leiðangri undanfarnar vikur og mánuði að gera allt tortryggilegt sem mögulegt er við meðferð þessara mála. Hv. þingmaður telur sig greinilega vera í góðri aðstöðu til að fjalla þannig um störf annarra manna.

Það er í fyrsta lagi rangt hjá hv. þingmanni að fjármálaráðherra hafi tekið einhverja sérstaka ákvörðun um að fara með eignarhlutina í SpKef sparisjóði og Byr hf. eftir að þeir voru stofnaðir. Með nákvæmlega sama hætti og eignarhlutirnir voru í höndum fjármálaráðuneytisins meðan verið var að semja um endurfjármögnun stóru bankanna og á milli gömlu og nýju bankanna og með sama hætti og farið hefur verið með eignarhlutina í öllum tilvikum færast þeir til Bankasýslunnar þegar eignin er frágengin og endanleg og fjármögnun hefur farið fram. Þannig gerðist það með stóru bankana. Þannig gerðist það með sparisjóðina þegar Seðlabankinn hafði lokið endurfjármögnun þeirra og þannig hefur það líka gerst í tilviki Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur, hefði orðið framhald á opinberu eignarhaldi í þeim fyrirtækjum. Um það hefur verið fullt samkomulag milli aðila, milli Bankasýslunnar og fjármálaráðuneytisins. Það er sú framkvæmd sem fylgt hefur verið eftir allan tímann þannig að hv. þingmaður rær ekki á fengsæl mið þegar hann reynir að gera það tortryggilegt.

Að sjálfsögðum teljum við ekki að stofnast hafi neinn viðbótarréttur eða kröfuréttur kröfuhafa á grundvelli þess hvernig farið hefur verið með þessi mál og það er eitt af því vandasama sem reynt er að passa upp á allan tímann að halda þannig á þessum málum að rétti allra sé til haga haldið og enginn geti gert kröfur málsmeðferðarinnar vegna. Ég tel ekki að svo sé í þessu tilviki.

Varðandi fjárútlátin sem að endingu geta lent á ríkinu vegna þess að tryggja þarf innstæður í Sparisjóði Keflavíkur (Forseti hringir.) eins og gert hefur verið í öllum öðrum tilvikum þegar fjármálafyrirtæki hafa komist í þrot, gefst ágætt tækifæri til að ræða það í umræðu um fjáraukalög á eftir.