140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[14:34]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2011. Hér í umræðunni hef ég fylgst með því að menn hafa kallað eftir því að við vinnum áfram að því að bæta fjárlagagerð og taka fjárlögin fastari tökum. Það er nokkuð sem við höfum verið að vinna að á síðastliðnum árum og náðst hefur töluverður árangur, en við eigum eftir að stíga nokkur skref í viðbót og ég treysti á að fjárlaganefndin fylgi því eftir. Það er þó mismunandi hvernig menn nálgast þetta, allt frá því að vera nánast með aðdróttanir um að menn séu að setja fram fjárlög eða fjáraukalög til að fela einhverja hluti, sem mér finnst nú ómaklegt. Ég held að menn hafi reynt að upplýsa um allt. Dæmigert fyrir þetta er auðvitað umræðan um sparisjóðina og bankana þar sem menn reyna að vinna heiðarlega að því að koma hlutunum til enda, verkefni sem er býsna stórt og viðamikið.

Ástæðan fyrir því að ég vildi endilega taka þátt í þessari umræðu er að mjög stór hluti af þessum fjáraukalögum er í málaflokkum sem heyra undir velferðarráðuneytið. Ég held að það sé mikilvægt að fara vel yfir þá þætti þannig að ljóst megi vera í hvað er verið að ráðstafa fénu til viðbótar.

Áður en ég segi það vil ég minna á það sem ég gerði áðan á ársþingi Starfsgreinasambandsins, en þar ítrekaði ég að við megum aldrei gleyma því að viðfangsefnið sem við erum að glíma við, er að reyna að aðlaga fjárlögin að 10–15% raunskerðingu á tekjum. Þá er ég bara að tala um raunskerðingu sem kemur fyrst og fremst til vegna þess að við vorum að keyra samfélagið á lántökum fyrir hrun, á 2 þús. milljarða lántökum í einkaneyslu þar sem veltan var afar óeðlileg. Við fengum af því skatttekjur, að minnsta kosti inn í bókhaldið á þeim tíma, og þetta hrundi. Við getum ekki, þó að við setjum öll hjól í gang sem hægt er, náð þessu aftur á skömmum tíma. Ég held að menn verði að horfast í augu við þann raunveruleika.

Í öðru lagi vorum við að borga í kringum 4% í vaxtakostnað. Nú fara um 15% af veltu ríkisins, þ.e. af tekjunum, í vaxtakostnað. Þar erum við að borga kostnaðinn við endurreisn bankanna, Seðlabankans og annarra banka, hallann á fjárlagagerðinni á meðan við vorum að aðlaga fjárlögin — halla sem við erum núna að breyta yfir í það að geta farið að borga niður skuldir — gjaldeyrissjóðinn sem búið er að stofna til að tryggja okkur til framtíðar, og auðvitað að taka afleiðingunum af hruninu. Eins og hér hefur verið rætt er enn ýmislegt að koma fram frá liðinni tíð sem við verðum að gera upp, því miður. Á meðan við förum í gegnum þetta verðum við auðvitað að aðlaga tekjur að útgjöldum, og athygli vekur að það skuli þvælast fyrir fjárlaganefndarmönnum að hugtakið frumjöfnuður nái yfir það. Verkefni okkar er að breyta vöxtum í velferðarútgjöld aftur, þ.e. að koma því þannig fyrir að við minnkum vaxtakostnaðinn og getum farið að greiða til velferðarinnar.

Ef við skoðum þær tölur sem birtast í fjáraukalagafrumvarpinu er þar farið fram á tæpa 14,6 milljarða kr. í viðbótarfjárheimildir til velferðarráðuneytisins. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að alls þurfi að hækka gjaldaheimildir ríkissjóðs um tæpa 4,2 milljarða kr. Það er auðvitað vegna þess að aðrar tekjur koma á móti.

Í fyrsta lagi er um að ræða viðbótarfjárframlög vegna áhrifa kjarasamninga, í öðru lagi endurmat á útgjöldum almannatrygginga og vinnumála og í þriðja lagi veikleika í útgjöldum sjúkratrygginga. Þegar ég segi veikleika á ég við að ekki hefur ekki tekist að standa við útgjaldaflokkana, þ.e. að ná þeirri hagræðingu sem áætluð var í frumvarpinu fyrir árið 2011.

Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir viðbótarfjárheimildum vegna nýrra verkefna né aukins umfangs eða rekstrarhalla hjá stofnunum og velferðarráðuneytinu. Ástæða er til að taka fram að í sársaukafullri aðlögun útgjalda að fjárheimildum hjá einstökum stofnunum og niðurskurði sem hefur leitt af því, hafa stofnanir náttúrlega staðið sig frábærlega vel og unnið samviskusamlega. Meginbreytingin er sú, að minnsta kosti frá því að ég kom inn í fjárlaganefnd árið 2007, að obbinn af stofnunum stenst fjárlög. Hjá einstaka stofnunum birtist þetta að vísu þannig að það er eins og þær hafi farið fram úr, af því að þær eru með skuldahala frá liðinni tíð sem hefur verið frystur. Það gildir um nokkrar stofnanir, við sjáum þetta t.d. hjá Háskólanum á Hólum og á Hvanneyri. Það er ómaklegt að alltaf sé verið að tala um að þar fari reksturinn árlega fram úr þegar þar er gamall hali sem hangir alltaf með og kemur fram aftur og aftur.

Við getum farið yfir það, lið fyrir lið, hvernig þessir 14,6 milljarðar kr. skiptast. Í fyrsta lagi er það vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar sem tengjast kjarasamningunum. Þar er um að ræða hækkun upp á 8,4 milljarða kr., þar af eru rúmir 6 milljarðar í bætur vegna almannatrygginga og hækkun bóta atvinnuleysistrygginga og vinnumála um 2,3 milljarða kr.. Þar skiptir náttúrlega mjög miklu máli að menn tóku hækkunina að fullu, miðað við lægstu laun, tóku 12 þús. kr. inn og hækkuðu bætur almennt um 8,1%. Hækkunin 1. janúar síðastliðinn var 2,5% og hækkunin á miðju ári 8,1%, og ef við bætum við 3,5% um áramót höfum við hækkað í þessum bótaflokkum á einu ári um 15%. Í hækkuninni til atvinnuleysistrygginga og vinnumála komu eingreiðslurnar inn að fullu — og gerðu líka í almannatryggingakerfinu — og til viðbótar hefur ríkisstjórnin bætt við desemberuppbót hjá þeim sem fá atvinnuleysisbætur sem nemur um 400–500 millj. kr. í desember, og er ástæða til að taka eftir því. Síðan voru samþykkt lög um að heimilt sé að greiða áfram þær bætur.

Í öðru lagi hljóða ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í vinnumarkaðsmálum upp á 780 millj. kr. Þar kostar ÞOR verkefnið, átaksverkefni fyrir langtímaatvinnulaust fólk, 40 millj. kr. og viðbótarkostnaður vegna átaks til eflingar menntunar fyrir atvinnuleitendur er 18 millj. kr. Takið eftir að sett var inn að á þessu ári eigi að bæta inn 2 þús. einstaklingum í framhaldsskólana og háskólana. Það ber að þakka samstarfið við Samtök atvinnulífsins, bæði ASÍ og launþegasamtökin öll, og Samtök atvinnurekenda og hvernig þau hafa tekið myndarlega á verkefninu Nám er vinnandi vegur, hvað frekari útgjöld varðar. Það er borgað af tryggingagjaldinu, við skulum gera okkur grein fyrir því, sem er launaskattur á starfsmenn og opinbera starfsmenn og aðra. Síðan kemur til fjölgun starfa fyrir námsmenn, þar sem aftur var bætt við, við fórum upp í 900 störf í sumar og munaði auðvitað verulega um það og kostaði 325 millj. kr.

Í þriðja lagi eru það aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að efla atvinnu og byggð á Vestfjörðum. Þar voru ekki stærri útgjöld í sjálfu sér í fjáraukanum en það, að dreginn var til baka niðurskurður á hjúkrunarheimilinu Barmahlíð upp á 15 millj. kr., það eru tvö pláss, og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða um 20 millj. kr. vegna öldrunarþjónustu. Heilbrigðisstofnuninni, í samráði við sveitarfélagið, var boðið að bæta öldrunarþjónustu á minni stöðum í útjaðri Ísafjarðarbæjar, á Flateyri og Þingeyri, og tillögur eru að koma frá heilbrigðisstofnuninni og bæjarfélaginu um hvernig ráðstafa eigi þeim 20 millj. kr.

Í öðru lagi er stór liður, hagrænar og kerfislægar breytingar, eins og það heitir svo hátíðlega, upp á 2,7 milljarða. Það er endurmat á útgjöldum og útgjaldahorfum. Bætur almannatrygginga breytast og þar er um að ræða leiðréttingu, í fyrsta lagi vegna þess að fjármagnstekjur sýna sig að vera minni en áætlað hafði verið, fyrst og fremst voru það tekjur af hlutabréfum og öðru slíku sem voru ofáætlaðar fyrir árið 2011. Tekjur frá lífeyrissjóðunum hafa líka verið ofáætlaðar. Atvinnutekjur hafa á hinn bóginn verið hærri en áætlað var í upphafi. Þetta eru breytingar sem Tryggingastofnun verður alltaf að leiðrétta fyrir. Síðan hefur orðið breyting á fjölda bótaþega, þar hefur orðið fjölgun. Bætur almannatrygginga nema 4 milljörðum kr., í atvinnuleysisbótunum var dregið til baka, það var minna atvinnuleysi en reiknað var með, og þar lækkum við um 270 millj. kr. Fæðingarorlofssjóður dregst niður og lækkar um 1,2 milljarða kr., að óbreyttum reglum. Færri hafa verið að taka fæðingarorlof og það er auðvitað áhyggjuefni og eitthvað sem við þurfum að skoða með tilliti til framtíðar og verður tekið til sérstakrar umræðu, með velferðarnefnd, hvernig við getum farið að skila því til baka aftur. Nýkomin er út skýrsla um Fæðingarorlofssjóð og ég hvet menn til að skoða hana.

Svo er þarna athyglisverður liður, styrkir til fiskvinnslufyrirtækja vegna hráefnisskorts, hann hækkar um 200 millj. kr. Það er svolítið merkilegt að reglurnar eru þannig að jafnvel mjög stöndug fyrirtæki geta gert út á þennan sjóð. Ég held að við þurfum aðeins að skoða þetta, fólk er skráð atvinnulaust í viku og fær greiðslur frá Atvinnuleysistryggingasjóði vegna hráefnisskorts, jafnvel þó að afkoma fyrirtækisins sé bullandi góð yfir árið. Ég held því að menn ættu að skoða þennan lið.

Varðandi breyttar forsendur að öðru leyti koma sjúkratryggingarnar þar inn með hækkun upp á 2,3 milljarða kr. Eins og ég sagði áðan höfum við ekki náð þar tökum á kostnaði, útgjöldum sem áætlað var að ná að lækka. Það er í fyrsta lagi lækniskostnaður upp á 1,1 milljarð kr., en samningar við sérgreinalækna eru runnir út og við þurfum að vinna að því hvernig við getum komið því í form aftur. Til að gæta alls réttlætis er það ekki þannig að þeir séu að fara fram úr þeirri upphæð sem var á árinu 2010, en þeir og við náum sameiginlega ekki þeirri hagræðingu sem ætlast var til.

Sama gildir um lyfin, sérstaklega þó svokölluð S-merktu lyf, sem eru sérlyf á sjúkrahúsum. Sameiginlegi lyfjakostnaðurinn hækkar um 900 milljónir og þar höfum við ekki náð þeim markmiðum sem sett voru um niðurskurð. En þrátt fyrir það hefur náðst verulegur árangur í að draga úr lyfjakostnaði, en ekki öllu því sem fjárlögin gerðu ráð fyrir. Lækniskostnaður vegna brýnnar meðferðar erlendis hækkar líka um 660 millj. kr. og þar er fyrst og fremst um að ræða gengisbreytingu en ekki að verið sé að færa ný verkefni úr landi.

Menn hafa sagt að við aðgerðir sem gripið hefur verið til í heilbrigðiskerfinu í heild hafi verkefni færst til í kerfinu. Því er mikilvægt að segja að í heilbrigðiskerfinu er um að ræða raunlækkun á kostnaði um 20%, miðað við að við náum fjárlögum 2012. Það er náttúrlega gríðarlega mikill niðurskurður en kannski í samræmi við það sem við höfum í tekjum. Við eyðum áfram 9,3% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál og við notum áfram svipað hlutfall af tekjum ríkisins í heilbrigðismál, þannig að niðurskurðurinn er ekki meiri en það.

Síðan eru smærri verkefni eins og hjá landlækni og Jafnréttisstofu þar sem um er að ræða leiðréttingar, viðbætur hjá umboðsmanni skuldara sem greiðast nú af lánastofnunum, þar er hækkun um 240 millj. kr., slysatryggingar o.fl. Smærri liðir eru undir sjúkratryggingaliðnum, svo sem kostnaður vegna jarðskjálftanna á Suðurlandi, hjá heilbrigðisstofnuninni þar og hjúkrunarheimilinu, upp á rúmar 40 millj. kr.

Þannig eru útgjöldin. Ég held að það sé afar mikilvægt fyrir okkur að átta okkur á því að viðbótarkostnaðurinn í fjáraukalögum fer að langstærstum hluta, sem betur fer, til bótaþega eða lífeyrisþega í landinu til að rétta kjör þeirra. Það er gríðarlega mikilvægt og í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Ekki er verið að bæta einstökum stofnunum upp, nema þar sem um að ræða breytingar eða tekið er tillit til sérstakra aðgerða eins og á Suðurlandi, svo það sé líka ljóst. Við erum ekki að missa tök á útgjaldaliðum nema í sjúkratryggingunum þar sem útgjaldaaukningin er 2,4 milljarðar kr. Það er næstum því jafnmikið eða meira en niðurskurðurinn var á heilbrigðisstofnunum að öðru leyti. Heilbrigðiskerfið er þannig í raun að hækka, bæði í ár og í fjárlagafrumvarpinu á næsta ári, þó að það bitni svo misjafnt á stofnunum eftir því hvar þjónustan er veitt.

Ég taldi mikilvægt að koma inn í umræðuna og fara formlega yfir þetta úr ræðustóli. Verkefnið er ærið, að aðlaga útgjöldin að tekjunum þannig að við getum farið að borga niður vaxtakostnaðinn, lánin og minnka vaxtakostnaðinn. Frumvarpið fer til fjárlaganefndar og ég treysti því að þar verði það skoðað og hljóti eðlilega málsmeðferð eins og skiptir miklu máli.

Það ánægjulega í þessu öllu saman er, að með bótabreytingunum og kjarasamningabreytingunum geta menn gefið yfirlýsingu, eins og gefin var hjá Starfsgreinasambandinu áðan, og geta sagt og staðið á því að frá hruni og fyrir hrun hefur kaupmáttur lægstu launa aukist. Það er mikið afrek og skiptir miklu máli.