140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir.

20. mál
[15:54]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður sagði að það þyrfti ákveðinn kjark til að flytja svona róttæka tillögu og það er rétt. Ég vil taka fram að auðvitað olli hún miklu fjaðrafoki þegar hún kom fyrst fram, alveg eins og tillagan um að banna reykingar á veitinga- og skemmtistöðum. Það var mjög umdeilt og olli miklu fjaðrafoki, sérstaklega á stöðunum sjálfum, veitinga- og skemmtistöðunum. Margir eigendur voru foxillir og töldu að þessir staðir færu allir lóðbeint á hausinn og ég veit ekki hvað og hvað.

Það er mjög merkilegt að upplifa það í dag að sumir þessara aðila hafa gefið sig fram við mann sérstaklega og þakkað fyrir þá baráttu sem þá var háð og sagt: Þú hafðir rétt fyrir þér, staðurinn fór ekki á hausinn, ég nýtti sjálfur tækifærið og hætti að reykja og dætur mínar o.s.frv. Það er svolítið merkilegt hve viðhorfið getur breyst ofboðslega hratt og hve menningin getur breyst hratt. Það er eiginlega svolítið gaman að upplifa hversu hratt hún getur breyst.

Ég er sannfærð um að það munu verða tekin róttæk skref í tóbaksvörnum vegna þess að við vitum svo mikið í dag, við vitum svo mikið um hve tóbak er hættulegt. Ég held líka að þeir sem reykja eigi að koma í baráttuna með okkur. Þeir vilja flestir hætta en geta það ekki. Það vill eiginlega enginn sem reykir í dag að barnið sitt byrji að reykja. Af hverju ekki? Af því að menn vita hvað þetta er hættulegt. Ég er algjörlega sannfærð um að við munum taka mjög róttæk skref á næstunni til að verja börn og ungmenni.

Ég minntist á það áðan að erlendir fréttamenn hefðu rætt þetta mikið við mig og þegar samtölunum lauk sögðu þeir nokkrir: Ég vona að þú náir þessu í gegn og þið á Íslandi. Ég á dóttur/son og ég skil ekki af hverju ég næ ekki að hefta reykingarnar hjá viðkomandi.