140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

Staða mála eftir ákvörðun Alcoa að hætta byggingu álvers á Bakka.

[13:53]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Umræðuefni okkar hér er samkvæmt heimasíðu Alþingis staða mála eftir ákvörðun Alcoa að hætta byggingu álvers á Bakka. Í fyrirsögninni kemur fram ákveðin mistúlkun. Alcoa var alls ekki byrjað að byggja álver á Bakka við Húsavík. Alcoa rekur nefnilega fyrirtæki á markaðslegum forsendum og verður því að byggja framtíðarplön sín á öruggum forsendum en ekki óskhyggju. Breytingin við að Alcoa fari af vettvangi er sennilega helst og mest sú að allir vakna nú til fullrar vitundar um að það verði farið öðruvísi að við atvinnuuppbyggingu á Bakka en sumir höfðu reiknað með. Vegna eðlis jarðvarmavirkjana verður að byggja upp í áföngum, fyrsti áfangi atvinnuuppbyggingarinnar verður því í takti við þau 200 megavött sem Landsvirkjun er tilbúin að tryggja á næstu missirum.

Nú verður farið öðruvísi að en gert var fyrir austan þar sem unnið var risaverk á skömmum tíma sem fyrst og fremst var unnið af aðfluttu vinnuafli því að svæðið átti alls ekki allt það vinnuafl sem til þurfti. Aðflutt vinnuafl á allt gott skilið, en ég verð að viðurkenna að ég hefði gjarnan viljað að atvinnuuppbyggingin á Miðausturlandi hefði verið hægari og jafnari, þá væri margt öðruvísi þar í dag, t.d. verkefnastaðan hjá verktökunum.

Atvinnuuppbyggingin á norðausturhorninu verður vonandi þess eðlis að hún geti skapað stöðuga og fjölbreytilega atvinnu hjá stórum hópi fólks í langan tíma því að byggð verða þar upp fleiri en eitt fyrirtæki og vinnan við orkuöflunina tekur líka langan tíma. Vinnufúsar hendur fá verk að vinna í langan tíma.

En orkuna á að nýta til atvinnuuppbyggingar á norðausturhorninu landsbyggðinni til heilla og hana á að selja á markaðslegum forsendum svo við fáum sem mest fyrir hana öllum landsmönnum til hagsbóta. Við verðum að varðveita formgerð samfélagsins á þessu svæði með því að hagræða, ekki þannig að kerfið blóðrenni og grunngerð þess, t.d. í heilbrigðis- og menntamálum, beri ekki sitt barr eftir. Síðan eigum við að taka óskum erlendra aðila um að fá að fjárfesta í ferðaþjónustu á þessu svæði opnum örmum ef þeir uppfylla eðlileg skilyrði. Slíkt samræmist (Forseti hringir.) þeirri frábæru ferða- og menningarþjónustu sem er á svæðinu.

Ég bíð spennt eftir þeirri kjördæmaviku þar sem við þingmenn fáum að njóta þjónustu í víðerni norðursins, skoðum norðurljósin með erlendum bræðrum og systrum (Forseti hringir.) á íslenskum gæðingum þegar farið verður um svæðið til að fylgjast með jafnvaxandi orkunýtingu í atvinnurekstri henni tengdri á þessu svæði.