140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

Staða mála eftir ákvörðun Alcoa að hætta byggingu álvers á Bakka.

[13:58]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Virðulegi forseti. Við sem komin erum til ára okkar megum muna tímana tvenna. Ég man að þegar ég var unglingur stóðu deilur um hvort selja skyldi orku til þess að reisa álver í Straumsvík. Niðurstaðan varð sú að það var ákveðið að gera það og allt gott með það. Peningar komu inn í landið o.s.frv. Mér segir hins vegar svo hugur um að núna stöndum við á nokkrum tímamótum, hingað til höfum við Íslendingar litið á það sem sérstakt náðarbrauð ef alþjóðleg fyrirtæki hafa viljað líta hingað á sérkjörum og kaupa af okkur ódýra orku. Þeir tímar eru liðnir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þeir tímar sem við fluttum út óunnið hráefni eru liðnir, fiskinn eins og hann kom upp úr sjónum, hugsanlega slægðan. Núna flytjum við út hágæðavöru sem mikil eftirspurn er eftir sem gefur mun meira af sér en að selja hráefni.

Ég ætla bara að minna ykkur á einn hlut. Eitt ríkasta land í heimi frá náttúrunnar hendi er Nígería. Þar eru meiri auðæfi saman komin en á öllum samanlögðum Norðurlöndum að Þýskalandi og Frakklandi meðtöldum. Þetta er eitt fátækasta land í heimi. Af hverju? Jú, vegna þess að þetta land selur hráefni úr landi óunnið á lægsta hugsanlega prís og hefur gert framvirka samninga um það til áratuga. Hins vegar er land eins og Danmörk sem ekkert hefur frá náttúrunnar hendi annað en að hugsanlega er hægt að rækta þar svínafóður eitt ríkasta land í heimi. Við skulum fara hina norrænu (Forseti hringir.) leið og gera okkur mat úr því sem við eigum og getum. Við erum ekki (Forseti hringir.) þrælar, við erum frjálsir menn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)