140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[14:55]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil biðja hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að veita okkur í þingsal þá áheyrn sem hún ætlar að veita samnefndarmönnum sínum í allsherjar- og menntamálanefnd. Eftir slíka þrumuræðu þar sem menn eru sakaðir um forræðishyggju og alls konar skepnuskap annan er rétt að þingmaðurinn komi og segi okkur hverjar tillögur hennar eru. Hverjar eru þær tillögur sem hún og aðrir sjálfstæðismenn ætla að koma fram með í hv. allsherjar- og menntamálanefnd? Af hverju kemur hún ekki með þær? Eru það tillögur Sigurðar Kára Kristjánssonar sem sat á þingi og átti fræga tillögu þegar hrunið varð og Sturla Böðvarsson, þáverandi forseti, setti fyrstar á dagskrá? Eru tillögur Sjálfstæðisflokksins um að leyfa? Þetta gekk út á að leyfa auglýsingar áfengis upp að vissu prósentumarki sem mér þótti hlægilegt, en það var alla vega tilraun til að leysa málin með einhverjum hætti. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er ekki að því. Hún er ekki að ræða málin. Hún kemur hér og hellir úr einhverjum skálum yfir hæstv. ráðherra Ögmund Jónasson og norrænu velferðarstjórnina og reynir að nota þetta mál, sem er problem í samfélaginu, til að ná sér niðri á vinstri mönnum með einhverjum hætti, ná sér niðri á stjórnarliðum, og slá einhverjar keilur í þágu Sjálfstæðisflokksins, hrunflokksins mikla, sem aldrei sinnti þessu máli og breytti aldrei neinu í því.

Hún segir: Íslenskir framleiðendur. Það er auðvitað hægt að vera enn billegri en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og spyrja: Bíddu, hvaða íslensku framleiðendur? Hvernig stendur á því að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir styður það kerfi að íslenskir framleiðendur sterks víns sitji skör lægra en erlendir framleiðendur sterks víns? Er það þannig að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Sjálfstæðisflokkurinn stefna að því að það sé allt í lagi fyrir börnin að drekka sterkt vín ef það er bara erlent? Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er spurð nákvæmlega sömu spurninga og hún bar hér fram í (Forseti hringir.) grallaraumræðu um alvarlegt efni, forseti.