140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[15:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði það hér, þannig að við séum ekkert í vafa um það ég og hv. þingmaður, að ég tel betra að leyfa auglýsingar en með takmörkunum. Ég viðraði ákveðnar hugmyndir í því hér áðan. Ég er ekki að segja að þær hugmyndir séu endilega fullhugsaðar en ég nefndi áðan að það mætti hugsa sér að peningar rynnu í forvarnasjóð til fræðslu.

Það má líka hugsa sér, virðulegi forseti, að auglýsingar sem tengjast áfengi — þó vil ég taka fram að ég sé það nú ekki fyrir mér að við auglýsum sterka drykki, bara að hafa það alveg á hreinu. Það kann að vera einhver mismunur í því. En það má hugsa sér að við hreinlega takmörkum hvenær auglýsa megi áfenga drykki eða létta drykki, til dæmis ekki í kringum barnatíma svo að dæmi sé tekið, eða jafnvel í kringum kappleiki þó að í því fælist mismunun gagnvart erlendum framleiðendum.

Frú forseti. Algert bann eða algert frelsi er ekki það sem ég sé fyrir mér. Það verður að vera einhvers konar takmörkun á þessu og ég ætla að vona að hv. þingmaður sé ekki að reyna að snúa út úr þeirri skoðun minni að vilja horfa þannig á hlutina. Ég vona svo sannarlega að frumvarpið fái góða meðferð í nefndinni og að nefndarmenn velti upp öllum þeim spurningum sem hér hafa verið bornar fram.