140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

höfuðborg Íslands.

29. mál
[17:30]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætla ekki að bera saman minn feril við feril hv. þm. Árna Johnsens. En í tilefni af þessu andsvari vil ég segja þetta. Ég held að sé kominn sé tími til að við reynum að ná okkur niður á jörðina í þessum efnum. Menn óttuðust það alla 20. öldina að Ísland yrði borgríki og það sem helst hann varast vann, það varð. Ísland er ósköp einfaldlega borgríki eins og það mál er skilgreint. Á höfuðborgarsvæðinu búa tveir þriðju hlutar landsmanna, a.m.k. hinu stærra. Eina verulega mótvægið við höfuðborgina eða önnur byggð sem stendur þokkalega styrkum fótum er á Eyjafjarðarsvæðinu, sem betur fer, því að ég tel æskilegt að landið haldist nokkurn veginn í byggð. Það er kominn tími til að viðurkenna þá staðreynd og það er kominn tími til að reyna að ná einhvers konar sáttum á þessum forsendum því að þetta breytist ekki. Við vitum ekki hvað gerist á 21. öldinni en ég tel mjög ólíklegt að þessi staða breytist.

Ég held að við getum náð þessu með einhvers konar samfélagssamningi milli höfuðborgarbúa eða höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar — ég hef að vísu aldrei skilið það hugtak, hvað er svo líkt með Trékyllisvík og Akureyri að hægt sé að kalla það einu nafni — einhvers konar samningi um það að ákveðin gæði séu jöfn og söm í þessum byggðum, að við náum ákveðinni tryggingu fyrir því í skólamálum, eins og hv. þingmaður réttilega nefndi, í menningarmálum, í atvinnumálum og reynum síðan að bæta þeim sem hljóta að falla af ýmsum ástæðum utan þessa svæðis upp með einhverjum hætti. Ég er hreykinn af því að minn flokkur hefur verið að hugsa í þessar áttir þó að það sé auðvitað ekki nógu skýrt. Ég hvet þingheim til að taka höndum saman um það (Forseti hringir.) og liður í því væri einmitt að móta þá höfuðborgarstefnu sem fælist í samningi við yfirvöld (Forseti hringir.) í Reykjavík um stöðu höfuðborgarinnar.