140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[15:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er góð spurning. Það eru engar tilviljanir í því, þetta er allt saman hugsað í samhengi. Það er búin að vera í gangi heilmikil kortlagning á íslenska skattkerfinu undanfarin tvö til tvö og hálft ár. Við gripum strax til ráðstafana sem vissulega vannst ekkert mikill tími til að undirbúa á miðju ári 2009, en frá og með því hefur skipulega verið unnið að því að fara í gegnum og skoða íslenska skattkerfið. Það er reyndar svo að það liggja fyrir margar skýrslur frá umliðnum árum um þarfar úrbætur sem þyrfti að gera í skattamálum, en þær rykféllu yfirleitt allar í skúffum því það var ekki í tísku á þeim árum að hrófla mikið við skattkerfinu nema bara með einum hætti, þ.e. að lækka alla skatta eða fella þá niður. Þannig var til dæmis ekki unnið nægjanlega að því á þensluárunum að stoppa í ýmis göt eins og varðandi samstæðuskattlagningu fyrirtækja, móðurfélaga hér og dótturfélaga erlendis. Það er búið að gera með svokölluðum CFC-reglum. Næsta vers í þeim efnum er að innleiða þarf hér reglur um lágmarkseiginfjármögnun, það sem kallað er á enskunni „thin capitalisation rules“. Við höfum fengið tvær skýrslur frá mjög færum sérfræðihópum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lagt til til að skoða annars vegar skattkerfið okkar í heild og hins vegar afmarkaða þætti þess. Þessir hópar eru þannig saman settir að það eru að hluta til starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en að hluta til eru fengnir sérfræðingar frá háskólum eða fyrirtækjum eða annars staðar að. Báðir þessir hópar unnu mjög góðar skýrslur. Sú seinni kom hér í vor og þar var sérstaklega horft til skattlagningar í tengslum við náttúruauðlindir og annað í þeim dúr.

Síðan hefur ákveðin verkefnisstjórn haldið utan um þetta með fulltrúum nokkurra ráðuneyta og nokkrum ráðuneytum, auðvitað undir forustu fjármálaráðuneytisins, og auk þess var virkjaður um tíma að minnsta kosti allbreiður samráðshópur með fulltrúum allra þingflokka. Ég viðurkenni að það hefur legið niðri um alllangt skeið, en ætlunin hefur verið að setja það af stað núna aftur, fara þá yfir yngri skýrsluna frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ljúka svo þeirri yfirferð og kortlagningu á skattkerfinu sem við höfum verið í með það að markmiði að fá um það skýrslu (Forseti hringir.) um áramót eða í síðasta lagi á fyrri helmingi næsta árs.