140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

varnarmálalög og lög um tekjustofna sveitarfélaga.

203. mál
[16:12]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á varnarmálalögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Meðflutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Ragnheiður Elín Árnadóttir, Ásbjörn Óttarsson, Kristján Þór Júlíusson, Jón Gunnarsson, Björgvin G. Sigurðsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Unnur Brá Konráðsdóttir og Róbert Marshall.

Frumvarpið er í tveimur greinum auk gildistökuákvæðis. Þetta er eins konar bandormur í smáu formi, annars vegar breyting á varnarmálalögum þar sem gert er ráð fyrir því að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skuli greiða fasteignaskatt af mannvirkjum við ratsjárstöðvar á Miðnesheiði, á Stokksnesi, Gunnólfsvíkurfjalli og Bolafjalli og hins vegar samkynja ákvæði sem lýtur að breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem varða ratsjárstöðvar þær sem utanríkisráðherra annast umsókn með samkvæmt 12. gr. varnarmálalaga, nr. 34/2008, og eru staðsettar á þeim fjórum stöðum sem ég nefndi áðan.

Á grundvelli 21. gr. varnarmálalaga eru öryggis- og varnarsvæði ásamt mannvirkjum íslenska ríkisins og starfsemi þeim tengd, undanþegin öllum opinberum gjöldum, þar með töldum fasteignasköttum. Með frumvarpinu er lagt til að þrátt fyrir hina almennu undantekningu verði greiddur fasteignaskattur af mannvirkjum við ratsjárstöðvar. Er gert ráð fyrir breytingu hvað þetta varðar bæði á varnarmálalögum og lögum um tekjustofna eins og ég hef þegar rakið.

Eins og við vitum hafa orðið talsverðar breytingar á starfsemi ratsjárstöðvanna í landinu. Uppbygging þeirra út um landið var á sínum tíma fjármögnuð af Mannvirkjasjóði NATO og störfuðu til skamms tíma tíu til tólf manns á þessum stöðvum öllum, t.d. á Bolafjalli, Stokksnesi og Gunnólfsvíkurfjalli. Við árslok 2004 var tekin ákvörðun um gjörbreytingu á rekstri stöðvanna og nú er starfseminni að mestu stýrt frá Keflavíkurflugvelli en örfáir starfsmenn, einn til tveir, annast daglegt eftirlit á hverri stöð.

Það er engin spurning um það að þegar ákvörðun var tekin um að fella niður starfsemina á þessum stöðvum hafði það mikil áhrif á fjármál sveitarfélaganna sem í hlut áttu. Ég hygg að á ýmsum stöðum, eins og til að mynda í minni heimabyggð, Bolungarvík, hafi þetta haft þau áhrif að útsvarstekjur lækkuðu um 5%. Þetta var mjög mikilvæg atvinnustarfsemi þó að hún hafi verið umdeild í upphafi. Hún skapaði ákveðna kjölfestu, þetta voru eftirsóknarverð störf og þess vegna var það mikið áfall fyrir fjárhag sveitarfélaganna þegar ákveðið var að leggja niður starfsemina. Ég hygg að í langflestum tilvikum hafi starfsmenn flutt burtu og ekki fundið sér nýjan starfsvettvang í þessum byggðum og því varð áfallið heilmikið.

Við brottför varnarliðsins í september árið 2006 tóku bandarísk stjórnvöld að sér að kosta rekstur ratsjárstöðvanna um eins árs skeið. En frá og með 1. september 2007 hefur reksturinn verið á hendi íslenskra stjórnvalda, fyrst Ratsjárstofnunar og síðar Varnarmálastofnunar. Nú síðast er það Landhelgisgæslan sem annast rekstur ratsjárstöðvanna.

Hér er einfaldlega gert ráð fyrir því að um þessa starfsemi, sem er ekki lengur varnartengd starfsemi, ekki er um að ræða varnarsvæði í þeim skilningi sem áður var, gildi sams konar reglur um fasteignaskatta og fasteignagjöld og um aðra atvinnustarfsemi í landinu. Öll rök hníga að því. Við þekkjum það að á síðustu árum hefur sú breyting verið gerð að ýmsar ríkisstofnanir sem áður voru undanþegnar fasteignasköttum og fasteignagjöldum greiða núna fasteignaskatta. Hér er t.d. um að ræða stofnanir eins og sjúkrahúsin, Seðlabanka Íslands, Ríkisútvarpið, menntastofnanir og fleiri sem greiða núna fasteignaskatta en gerðu það ekki áður. Fyrir þeirri breytingu voru ákveðin sanngirnisrök. Hér er um að ræða fasteignir í byggð og við teljum eðlilegt að af slíkum fasteignum séu greidd gjöld og það séu sveitarfélögin sem fá þessa tekjustofna. Þess skýtur það óneitanlega mjög skökku við að ekki skulu vera greidd gjöld af starfsemi ratsjárstöðvanna í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa. Segja má að hér sé verið að stíga skrefið til fulls og leggja til að stofnanir sem eru í eigu ríkisins og eru staðsettar á þessum stöðum greiði fasteignaskatta, eins og gildir um önnur mannvirki á vegum stofnana af öðru tagi sem eru staðsettar vítt og breitt um landið.

Þess má geta að það sveitarfélag sem hefur væntanlega notið mest góðs af þeim breytingum sem voru gerðar á fasteignasköttunum á sínum tíma er auðvitað sveitarfélagið Reykjavík þar sem þær opinberu stofnanir sem ég nefndi dæmi um áðan eru að langmestu leyti staðsettar. Breytingarnar í þessu frumvarpi mundu fyrst og fremst gagnast sveitarfélögunum Reykjanesbæ, Hornafirði, Langanesbyggð og Bolungarvík og veitir alveg örugglega ekki af.

Þetta mál er ekki mjög flókið eins og allir sjá. Hér er einfaldlega verið að setja sambærilegar reglur um greiðslu fasteignaskatta af fasteignum sem hýsa þessa opinberu starfsemi þar sem hún er sett niður, eins og á við um opinbera starfsemi af öðru tagi.

Ég legg til að eftir þessa umræðu fari málið til efnahags- og viðskiptanefndar og 2. umr.