140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

byggðastefna.

[13:46]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Þó að við framsóknarmenn höfum ekki lagt það í vana okkar að gleypa allt hrátt sem frá Evrópusambandinu kemur, öfugt við ýmsa aðra, er ekki þar með sagt að frá þeim félagsskap komi tóm vitleysa. Þannig var byggðastefnu hæstv. iðnaðarráðherra lýst á snaggaralegan hátt í rýniskýrslu um landbúnaðar- og byggðamál sem nýlega var gefin út í tengslum við aðlögun Íslands að Evrópusambandinu.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Iceland has no comprehensive rural development policy.“ Það er: Ísland hefur enga heildstæða byggðastefnu.

Svo mörg voru þau orð. (Gripið fram í.)

Maður þarf heldur ekki að vera neinn sérfræðingur í Brussel til að átta sig á því að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur enga áætlun um það hvernig viðhalda skuli byggð í landinu. Sá niðurskurður sem stjórnvöld hafa staðið fyrir á síðustu missirum hefur bitnað af meiri þunga á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Sameining opinberra stofnana, svo sem dómstóla, sýslumannsembætta og sjúkrahúsa, kann að líta vel út á pappír en fyrir íbúa utan höfuðborgarsvæðisins geta slíkar sameiningar gert fólki ókleift að búa á stórum svæðum.

Jafnframt verð ég að segja að vantrú eða jafnvel andstaða ríkisstjórnarinnar gagnvart lykilatvinnugreinum á landsbyggðinni svo sem sjávarútvegi, landbúnaði og orkuiðnaði er mikið áhyggjuefni. Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á svonefnda 20/20 áætlun sem við fyrstu sýn virðist fengin að láni frá Evrópusambandinu. Því miður virðist aðeins nafnið hafa verið fengið að láni. Hin íslenska 20/20 áætlun virðist frekar eins og óskalisti til jólasveinsins en heildstæð stefna. Og líkt og Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, sagði í útvarpsviðtali um daginn er hér engin byggðastefna, aðeins byggðaóskir.

Því langar mig að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort hún sjái ekki ástæðu til að setja upp alvörubyggðaáætlun sem byggir á öðru en að draga sífellt fleiri tennur úr landsbyggðinni. Hvernig hyggst hún vinna slíka áætlun og í kjölfarið hrinda henni í framkvæmd?