140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:03]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann aðeins út í tiltekið atriði varðandi nefndarálit meiri hluta sem lýtur að tillögu sem gerð er um breytingu á heimildargrein sem varðar Vaðlaheiðargöng hf. Það hefur verið í umfjöllun frá því í gær að settur verði milljarður til verkefna en í bókuninni kemur fram að meiri hlutinn leggi áherslu á að áður en stofnað sé til skuldbindinga komi málið aftur til fjárlaganefndar og verði kynnt henni með fullnægjandi hætti. Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvaða þýðingu þessi bókun eða tillaga meiri hluta fjárlaganefndar hafi að hennar mati fyrir framgang verksins, hvort eitthvað sé hægt að gera þarna áður en þetta ákvæði eins og það er sett í orð sé fullnustað.