140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[14:42]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Árið 1999 settist ég á Alþingi og hef setið þar síðan. Það eru stór orð en ég held að ég hafi aldrei fyrr orðið vitni að ræðu á Alþingi sem er jafnröng og sett fram með eins kolvitlausum fullyrðingum og sleggjudómum og hv. þm. Þór Saari hefur gert núna á þeim sjö eða tíu mínútum sem hann notaði í ræðustól í umræðum um Vaðlaheiðargöng. Þvílíkt og annað eins. Ég frábið mér ekki málefnalega umræðu um verk hér á Alþingi. En það sem sett var fram hér var með þvílíkum ósköpum að ég hygg að það verði skráð á spjöld sögunnar um síðustu þing.

Virðulegi forseti. Ég mun fara betur yfir þetta mál í ræðu minni á eftir og vona að hv. þingmaður verði þá í þingsalnum en í þessu andsvari ætla ég að spyrja hv. þingmann út í eitt vegna þess að hann sagði í ræðu sinni og á fundi umhverfis- og samgöngunefndar að jarðgangaframkvæmdir hefðu farið tugi prósenta og gott ef hann nefndi ekki 80–90% fram úr kostnaðaráætlun. Ég endurtek, fram úr kostnaðaráætlun. Þetta voru stór orð og eru mikil gagnrýni á Vegagerðina og þá sem þar vinna og verkfræðistofur úti í bæ sem vinna verk fyrir Vegagerðina eins og t.d. gerð kostnaðaráætlana. Nú hefur Vegagerðin birt á heimasíðu sinni útlistingar þar sem þessu er andmælt, m.a. vegna orða hv. þingmanns og þar segir: Þetta er kolrangt. Bolungarvíkurgöng fóru ekkert fram úr áætlun þrátt fyrir að þar hafi komið fram setlög og ýmislegt annað, (Gripið fram í: Undir áætlun.) voru undir áætlun ef eitthvað er, og um Héðinsfjarðargöng þar sem við lentum í þeim mestu vandræðum sem við höfum lent í með jarðgangagerð er sagt að farið hafi verið 17% fram úr áætlun.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann vilji ekki biðja starfsmenn Vegagerðarinnar og verkfræðistofa sem unnu þessar kostnaðaráætlanir afsökunar á sleggjudómum sínum sem hér hafa komið fram.