140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

ráðning forstjóra Bankasýslunnar.

[15:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að heyra þetta. Hæstv. ráðherra er að segja okkur að hann hafi ekki haft hugmynd um þetta fyrr en það kom fram í fjölmiðlum. Eftir allt það sem á undan er gengið hefur hann ekki einu sinni hugmynd um það hvort einhver í ráðuneytinu hafi vitað af þessu.

Virðulegi forseti. Hefur hæstv. ráðherra ekki neinar áhyggjur af samskiptum eða samskiptaleysi á milli aðila innan stjórnkerfisins? Svo maður spyrji bara hreint út: Trúir hæstv. ráðherra því að einhver trúi því að hvorki hæstv. ráðherra né nokkur í ráðuneytinu hafi haft hugmynd um að það væri búið að ráða þennan einstakling sem forstjóra Bankasýslu ríkisins?