140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þingsköp Alþingis.

27. mál
[17:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir ágæta ræðu. Hún kom víða við, var reyndar dálítið dómhörð í garð annarra þingmanna en það er hennar réttur. Hún sagði að kjör þingmanna hefði mistekist og þá er hún líka dómhörð gagnvart kjósendum en það er líka hennar réttur.

En hún talaði ekki um foringjaræðið og hvernig foringjaræðið (Gripið fram í.) veldur því að hér eru keyrð í gegn mál sem ekki njóta almennrar … (Gripið fram í.) Ja, þá hef ég misst af því í ræðunni, ég var að hlýða á hana niðri. Foringjaræðið veldur því að hér eru keyrð í gegn mál sem eru mjög hættuleg. Ég minni á Icesave. Hafi ég einhvern tíma komist nálægt því að fara í málþóf var það undir lok Icesave-umræðunnar, 2. umr. um Icesave-málið sem var svo samþykkt sem lög frá Alþingi en forseti Íslands skrifaði ekki undir. Þar sem málið var tafið náðist nægilega mikil undirskriftasöfnun þannig að forsetinn varð að taka tillit til þess og þetta hafði þau áhrif að við sitjum ekki uppi með gífurlegar skuldir í dag, Íslendingar. (Gripið fram í.)

Í haust var ekki málþóf, ekki af minni hálfu. Ég spurði ráðherra aftur og aftur og aftur að því og sérstaklega forsætisráðherra hvernig hún ætlaði að nota þau alræðisvöld sem henni voru falin í þeim lögum því að hún fær nefnilega gífurleg völd. Ég fékk aldrei nokkurn tíma svör og ég veit ekki enn hvað hæstv. forsætisráðherra ætlar að gera við þessi völd. Ég bara bið fyrir mér ef til valda kemur forsætisráðherra sem beitir þessu því að hann hefur þvílík völd, hann getur tekið verkefni frá innanríkisráðherra varðandi Grímsstaði á Fjöllum, hann getur auðveldlega tekið Evrópusambandsaðildina frá hæstv. sjávarútvegsráðherra.