140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[10:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þegar fjáraukalög fyrir árið 2011 koma nú til lokaafgreiðslu vil ég þakka fjárlaganefnd fyrir vinnu hennar og ítreka þá yfirlýsingu sem ég gaf í umræðunum í gær varðandi beitingu þeirra heimilda sem í fjáraukalagafrumvarpinu felast, þar á meðal varðandi aðkomu ríkisins að fjármögnun Vaðlaheiðarganga á byggingartíma. Að sjálfsögðu verður farið með þær heimildir að einu og öllu í samræmi við óskir fjárlaganefndar og það uppfyllt sem þar kemur fram í nefndaráliti að enginn endanlegur og bindandi samningur verði gerður fyrr en fjárlaganefnd hefur verið upplýst um allar forsendur eins og þær liggja þá fyrir. Fjármálaráðuneytið hefur sömuleiðis ákveðið að leita til utanaðkomandi og óháðs viðurkennds aðila til að fá sjálfstætt mat á reikningslegum forsendum framkvæmdarinnar og sjálfbærni verkefnisins. Niðurstöður úr þeirri athugun verða að sjálfsögðu lagðar fyrir fjárlaganefnd áður en gengið verður frá málinu endanlega.