140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

stóriðjuframkvæmdir.

[15:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Orðspor Íslands hafi lagast verulega? Á síðasta ári, 2010, skilaði Pricewaterhouse Coopers í Hollandi skýrslu til Fjárfestingarstofu, þar sem íslensk stjórnvöld fengu falleinkunn í samanburði við önnur lönd gagnvart beinni erlendri fjárfestingu. Sú skýrsla er svört um að hér sé pólitískur óstöðugleiki það helsta sem fæli fjárfestingar frá. Það hefur nú lagast verulega við þessi vinnubrögð hæstv. ráðherra — eða hitt þó heldur. Heldur hann því virkilega fram að vinnubrögð af þessu tagi séu til þess fallin að stuðla að trausti á Íslandi á erlendum vettvangi?

Væri ekki nær að ráðherrann lýsti því yfir að hann mundi standa við það samkomulag sem hann gerði við þessi fyrirtæki árið 2009 um að þau byggju hér við sambærilegt umhverfi og gerist í Evrópu í rekstri sínum? Getur hann ekki lýst því yfir, eða ætlar hann að fara í nýjar viðræður? Mun það standa sem hann skrifaði undir við þessi fyrirtæki árið 2009, í samningi sem blekið er varla þornað á, (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) eða er hann að fara í nýjar viðræður? Það kom fram hjá fulltrúum meðal annars Fjárfestingarstofu að ef þetta verður ekki dregið til baka að fullu og skilyrðislaust (Forseti hringir.) mun engin fjárfesting fara hér af stað. Þá munu engin fyrirtæki koma hingað til landsins til að fjárfesta vegna pólitískrar óvissu.