140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

stóriðjuframkvæmdir.

[15:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það eru engir algildir mælikvarðar til til að mæla orðspor landa þótt megi reyna að fylgjast með umfjöllun um það í fjölmiðlum o.s.frv. Ég gef ekki endilega mikið fyrir sumar æfingarnar sem að Íslandi hafa beinst í þessu efni þar sem menn virðast ekkert hafa fylgst með framvindu mála hér síðan 2008. Það er ekki von að menn gefi okkur háa einkunn ef þeir horfa fyrst og fremst á landið með þeim gleraugum. (Gripið fram í.) En við höfum nokkrar staðreyndir sem eru miklu betri mælikvarði á þetta en annað, eins og þá staðreynd að íslenska ríkið fór út á alþjóðlegan lánamarkað í júní 2011 og sótti sér þar 1 milljarð bandaríkjadala á ágætum kjörum. Það er ekki hægt nema landið njóti tiltekins trausts.

Hið sama segja okkur þær mælingar að lánshæfismat landsins hefur verið styrkt, bæði ríkisins og Landsvirkjunar, núna á síðustu dögum og horfurnar ágætar í þeim efnum. Ég held að það sé ekki vandamál að ræða þetta í því samhengi að orðspor landsins er að sjálfsögðu á réttri leið eins og landið almennt.

Varðandi fjárfestingarverkefnin verður tryggt, og það er þegar tryggt að mestu leyti í þeim fjárfestingarsamningum sem þau hafa, (Forseti hringir.) að þau njóti hérna mjög samkeppnishæfra starfsskilyrða hvað varðar skatta og aðra slíka hluti, og að því ógleymdu að þau fá hér sennilega hagstæðara raforkuverð svo miklu munar en þeim stendur annars staðar til boða, a.m.k. í Evrópu.