140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

Viðlagatrygging Íslands.

210. mál
[16:00]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Í 5. gr. laga um Viðlagatryggingu er tæmandi upptalning á þeim mannvirkjum sem skylt er að hafa viðlagatryggð á hverjum tíma. Þar undir falla meðal annars allar hitaveitur, vatnsveitur og skolpveitur sveitarfélaga eða ríkissjóðs en þessar eignir er hins vegar ekki skylt að vátryggja hjá Viðlagatryggingu. Einkaveitur, til dæmis vatnsveitur einstakra sveitabæja, falla undan vátryggingarskyldu og það geta verið ýmis önnur atriði sem falla undan vátryggingarskyldu.

Ég held að í sjálfu sér skipti máli að lögin séu skýr varðandi það hvar vátryggingarskyldan hefst og hvar henni lýkur og síðan séu það vátryggingafélögin sem tryggi að öðru leyti eignir þar umfram. Það þarf að vera ljóst fyrir hverjum og einum og fólk þarf að átta sig vel á því hvaða eignir þess falla undir tryggingu Viðlagatryggingar og hvað fellur utan. Mikilvægt er að þau mörk séu ekki vafa undirorpin þannig að fólk geti keypt sér viðbótartryggingu ef það er með aðrar eignir þar utan við.

Nefnd er nú að störfum um endurskoðun laga um Viðlagatryggingu. Menn hafa horft þar á ýmsa þætti, svo sem hvernig nákvæmlega eigi að haga ákvæðum um vátryggingarskyldu. Almennt held ég að staðan sé sú að það skipti miklu máli að hafa einfaldar reglur um vátryggingarskylduna, annaðhvort sé hún á eigendum tilgreindra eigna eða ekki, því að reynslan af frelsi til að kaupa sér viðlagatryggingu er ekki sérstaklega góð. Ekki er skylt að viðlagatryggja innbú og fólk upplifir mikla erfiðleika þegar það sér síðan fram á innbústjón vegna náttúruhamfara sem er þó mikill þrýstingur á að verði bætt eftir á, án þess að innbúið hafi verið vátryggt.

Ég held að annaðhvort þurfi að skylda menn til að vátryggja mannvirki í einkaeigu, svo sem veitumannvirki í einkaeigu, eða fjalla ekkert um þau í lögunum og hafa ástandið óbreytt. Aðalatriðið er að vátryggingarskyldan sé skýr og lítill vafi þar á. Ég held að það sé ekki sérstaklega æskilegt að búa til einhvern sjóð til að bæta fólki síðan það sem það fær ekki bætt út úr því lagaumhverfi. Við eigum að hafa lagaumhverfið eins skýrt og mögulegt er og tilgreina vátryggingarskylduna skýrt, en ég sé ekki sérstakt réttlæti í því að menn fái síðan frekari bætur fyrir hluti sem löggjafinn hefur ekki talið þess eðlis að þeir eigi að vera tryggingaskyldir.

Öðru máli gegnir um tjón sem verður vegna náttúruhamfara. Ef til dæmis Orkuveitan hefur rétt fyrir sér reynist erfitt að sanna að menn séu að verki þrátt fyrir að þeir sjái beint samhengi milli niðurdælinga og skjálfta. Þá kunna að vera sérstök rök til þess að hlífa fólki við slíkum ófyrirséðum tjónsatburðum, en ég tel að við ættum að telja upp þá hluti sem skylt er að hafa tryggða samkvæmt lögum um viðlagatryggingu og láta þar við sitja.