140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

heiti Ríkisútvarpsins.

167. mál
[16:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Árið 1930 var stofnað hér á landi Ríkisútvarpið. Þegar það var stofnað voru 12 ár liðin frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki árið 1918, 1. desember sem einmitt er fram undan. Ætli það hafi ekki ráðið því sá skammi tími að á þessum tíma voru menn áfram um að kenna sig við ríkið þegar stofnað var til einhverra fyrirtækja eða stofnana á þess vegum og eru um það ýmis dæmi, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er enn þá til og margar slíkar stofnanir hafa verið til og eru núna niður lagðar. Skipaskráningarstofa ríkisins, ég rakst á skilti með því orði núna um daginn en það er víst búið að leggja hana niður. Fleira er til, Ríkisútgáfu námsbóka höfum við með forliðnum ríki- o.fl.

Þessi stofnun, Ríkisútvarpið, hefur borið nafn sitt nokkuð stolt og glöð hingað til þrátt fyrir ýmsar breytingar í bæði rekstri og umhverfi þeirrar stofnunar en nú ber svo við að það orð heyrist sjaldan í útsendingum þeirrar stofnunar, í útvarpi og sjónvarpi. Þess vegna þótti mér rétt að endurvarpa inn á þingið spurningu sem hljómað hefur nokkuð í umræðu, m.a. í blöðum:

Hvað heitir Ríkisútvarpið?

Ég hlýt að bæta við ef það heitir ekki lengur Ríkisútvarpið: Hvenær urðu nafnskipti á þeirri stofnun og hvernig fóru þau fram? Hver ákvað það og af hvaða ástæðu?

Menn hafa furðað sig á að hæstv. fjármálaráðherra fái þessa spurningu en ástæðan til þess er mjög skýr, hann er sá sem fer með hlutabréfið í Ríkisútvarpinu ohf. og er þess vegna eini maðurinn hér inni sem getur svarað þessari spurningu, fulltrúi eiganda í þessari stofnun sem menn vita ekki lengur hvað heitir.