140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

Íslandskynning.

123. mál
[17:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Við Íslendingar vorum heiðursgestir á viðamestu og stærstu bókakaupstefnu í heimi, sem er í Frankfurt, og ég vil byrja á að óska ráðherra, sem er ábyrgur fyrir þeirri framkvæmd, innilega til hamingju með það. Ég er sannfærð um að það var rétt ákvörðun sem tekin var á sínum tíma og það var líka rétt að fylgja henni eftir, en ég er ekki í vafa um hver hefði fengið gusuna yfir sig ef þessi mál hefðu öll klúðrast.

Ég þakka ráðuneytinu það starf sem það hefur sinnt varðandi bókakaupstefnuna þar sem Ísland var heiðursgestur. Við vitum hverjir hafa helst lagt lóð á vogarskálarnar en þar eru í broddi fylkingar Halldór Guðmundsson og hans starfsfólk. Þau gerðu það að verkum að þetta varð jafndýnamískt og raun bar vitni og fyrir það allt ber að þakka. Ég er hrædd við að byrja á einhverjum lista, ég ætla helst ekki að fara út í það, en nefni að það eru ekki síst rithöfundar og útgefendur sem hafa gert þetta allt mögulegt. Þarna erum við sterkust. Þegar allt er í klúðri er það menningin sem aldrei bregst. Við eigum að líta aðeins inn á við og sýna hvar við erum sterk fyrir en það er einmitt á sviði menningar og ekki síst á sviði bókmennta.

Reynslan var góð. Þetta var vel heppnað, þetta var fallegt, þetta var hógvært. Við vorum ekki með neinn belging en undirstrikuðum hversu sterk við erum á þessu sviði.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hyggist halda áfram með þetta verkefni í einhverju formi, hvort nýta eigi þá miklu reynslu sem við öðluðumst í Frankfurt við að kynna íslenska menningu, kynna íslenskar bókmenntir og kynna landið okkar. Hefur ráðherra einhver áform um að útfæra þetta konsept? Ég sé líka að í gegnum önnur ráðuneyti fer fram viðamikil kynning á Íslandi, bæði á náttúrunni og ekki síður menningunni. Sér ráðherra þetta verkefni tengjast inn í verkefni annarra ráðuneyta, en mér sýnist að oftar en ekki gegni menningin lykilhlutverki í því að koma Íslandi á kortið á ný?