140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Það vakti óneitanlega athygli í gær í óundirbúnum fyrirspurnatíma að þráspurður gat hæstv. fjármálaráðherra og formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ekki lýst því yfir að hann bæri traust til ráðherra eigin flokks, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jóns Bjarnasonar. Þingflokksformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafði áður látið þau orð falla að ráðherrastóll sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra væri orðinn valtur. Mér þótti það ansi sterkt tekið til orða og raunar fáheyrt. Það kom satt að segja ekki á óvart að hæstv. forsætisráðherra gæti ekki lýst yfir stuðningi við þennan sama ráðherra en það kom mér hins vegar á óvart að samflokksmenn ráðherrans gátu ekki tekið af skarið afdráttarlaust og sagt hvort þeir styddu ráðherrann í embætti eða ekki.

Í fjölmiðlum í dag er haft eftir hæstv. innanríkisráðherra Ögmundi Jónassyni, með leyfi forseta: „Ég stend alltaf með Jóni Bjarnasyni.“

Mig langar til að spyrja hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur um afstöðu hennar til þeirrar stöðu sem upp er komin, þ.e. að hvorki formaður né þingflokksformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs geti lýst yfir stuðningi við samráðherra sinn. Mig langar til að spyrja þingmanninn hvort hún geti lýst yfir trausti sínum á þessum hæstv. ráðherra. Hvaða hug ber hv. þingmaður til Jóns Bjarnasonar? Styður hún hann í embætti?