140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir kom inn á hafa uppákomur helgarinnar verið með eindæmum. Það varð allt snarvitlaust vegna þess að hæstv. innanríkisráðherra leyfði sér að fara að íslenskum lögum og stjórnarliðar höfðu uppi hótanir gagnvart ríkisstjórnarsamstarfinu, veltu fyrir sér hvort þeir styddu ríkisstjórnina áfram, og í kjölfarið eins og til að afvegaleiða umræðuna var sagt að helsta vandamál þessarar ríkisstjórnarinnar væri hæstv. ráðherra Jón Bjarnason. Það er alveg dæmalaust að mínu viti og mér þætti að sjálfsögðu hæstv. fjármálaráðherra og hv. þingflokksformaður VG vera menn að meiri ef þeir styddu ráðherra sinn afdráttarlaust og segðu svo hátt og skýrt: Ég styð að sjálfsögðu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason enda hefur hann gegnum tíðina verið vopnabróðir alls þess fólks sem nú er í ríkisstjórn í gegnum árin og ekkert dregið af sér. Hann hefur staðið manna fastast á þeirri grunnforsendu og grunnstefnu Vinstri grænna að hafna aðild að Evrópusambandinu og er lykilmaður í þeim efnum innan VG þannig að það væri gríðarlegt áfall fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð ef hún sneri baki við þeim hæstv. ráðherra. Að sjálfsögðu er það sem hann gerir ekki hafið yfir gagnrýni frekar en það sem aðrir ráðherrar gera, engin vinnubrögð hæstv. ráðherra í ríkisstjórn eru hafin yfir gagnrýni. Þá segi ég: Við skulum þá taka alla ráðherra þessarar ríkisstjórnar, allar embættisfærslur þeirra, öll vinnubrögð, til ítarlegrar skoðunar ef taka á hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) Jón Bjarnason sérstaklega fyrir. Ég styð Jón Bjarnason.