140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:17]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Undanfarið hafa birst auglýsingar frá Alþýðusambandi Íslands þar sem því er haldið fram að ríkisstjórnin ætli með fjárlagafrumvarpi sínu að svíkja þá sem lökust hafa kjörin með því að hækka bætur atvinnulausra og lífeyrisþega aðeins um 5.500 kr. en ekki 11.000 kr. eins og lægstu laun munu gera 1. febrúar á næsta ári.

Frú forseti. Ég mun leggja fram breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið um að bætur atvinnulausra og lífeyrisþega hækki um 11.000 kr. Því miður er nefndasvið Alþingis undirmannað og breytingartillagan ekki tilbúin en hún mun koma fram. Ég vil nota þetta tækifæri til að spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvort hún muni styðja breytingartillögu mína eða hvort hún ætli að vera í liði með ríkisstjórninni og gera það sem Alþýðusambandið sakar hana um að gera, að svíkja þá sem lökust hafa kjörin.