140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég tek undir að þetta er skref í rétta átt en engu að síður er engan veginn verið að uppfylla þann samning sem gerður var á sínum tíma við kvikmyndagerðarmenn. Stefnubreyting hefur orðið í kvikmyndamálum. Kvikmyndagerðin er ekki lengur á forgangslista ríkisstjórnar Íslands og mér finnst það miður.

Það er fyrst núna sem verið er að reyna að lappa upp á þetta, m.a. framlögin til Kvikmyndaskólans. Kvikmyndagerð er ekki lengur á forgangslista og það sama gildir núna með Kvikmyndamiðstöð Íslands. Þetta er skref í rétta átt en þetta er einfaldlega ekki nóg. Það þýðir ekki að kippa undirstöðum undan kvikmyndagerðinni sisvona og halda síðan að allt reddist með einhverri skyndireddingu rétt fyrir jól.