140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Eins og oft undir þessum dagskrárlið eru mörg mál undir. Ég vil byrja á því að gera athugasemd við ræðu hv. þm. Þráins Bertelssonar sem skammaðist út í þetta fyrirkomulag hér og fór um það og okkur samþingmenn sína frekar ósmekklegum orðum til þess að, miðað við ræðu hans, reyna að auka virðingu þingsins. Mér fannst það frekar undarlegur málflutningur. Ég tel mjög nauðsynlegt að við höfum þennan vettvang þar sem við getum tekið upp þau mál sem eru á dagskrá hvers dags í stjórnmálum í þjóðfélaginu vegna þess að hér tökum við á þeim málum sem upp koma.

Ég vil líka víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams. Ég get tekið undir með honum að mörgu leyti um að í því starfi sem unnið var í svokallaðri sáttanefnd voru að mörgu leyti viðhöfð vinnubrögð sem eru mjög til fyrirmyndar. Í tilfelli þess máls sem tekið var fyrir þar var rætt um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og allir hagsmunaaðilar, allir stjórnmálaflokkar og fulltrúar ólíkra sjónarmiða í þjóðfélaginu, voru leiddir saman til að komast að niðurstöðu sem svo varð. Ég mæli með þessum vinnubrögðum. Við sjálfstæðismenn tókum þátt í því af fullum heilindum og áttum aðild að þeirri sátt sem náðist.

Þess vegna skýtur óneitanlega skökku við hvernig málið hefur svo verið unnið í framhaldinu. Það er kannski þar sem mig greindi á við hv. þingmann. Það er gott og blessað að setja á laggirnar nefndir til að heyra ólík sjónarmið en það verður þá að vera tryggt að þegar niðurstaðan er komin og komið að því að vinna málið lengra verði tekið tillit til þessara ólíku sjónarmiða. Það hefur ekki verið gert í fiskveiðistjórnarmálinu og þess vegna er það mál í því öngstræti sem það er í núna.