140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

ósakhæfir fangar á Íslandi og aðbúnaður þeirra fyrr og nú.

[11:08]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er athyglisvert að umræður nú á jólaföstu snúast mjög um hvar vista eigi dæmda menn, hvort ósakhæfir skuli vistaðir á Sogni í Ölfusi eða við sundin blá inni á Kleppi, og hvar reisa eigi nýtt fangelsi, á Hólmsheiði, á Eyrarbakka eða á Suðurnesjum.

Í ljósi þeirrar umræðu er eðlilegt að spurt sé hvort réttargeðdeild og fangelsi séu fyrst og fremst vinnustaðir, hvort aðalatriðið sé að eftirlit og umönnun þess ógæfusama fólks sem dæmt hefur verið til vistunar á viðeigandi stofnun, eins og það heitir, eða til fangelsisvistar, skaffi öðrum vinnu og þá hvar. Ég ætla ekki að ræða það, ég hef hins vegar óskað eftir því að ræða við hæstv. velferðarráðherra um þá sem málið snertir mest, Sognsmálið snertir mest geðsjúka afbrotamenn sem hlotið hafa dóma. Kastljós sjónvarpsins rifjaði það upp í októbermánuði síðastliðnum hver aðdragandinn hefði verið að stofnun Sogns 1992 og það var sannarlega svört saga. Í tveimur eftirminnilegum Kastljóssþáttum var rifjað upp hversu herfilegur aðbúnaður ósakhæfra fanga var hér á landi fyrir ekki svo mörgum árum, manna sem dæmdir voru fyrir alvarleg afbrot, þar á meðal morð, en voru ekki ábyrgir gerða sinna sökum alvarlegrar geðsýki eða geðveilu.

Hegningarlög voru og eru skýr hvað þetta varðar, slíka menn ber að vista á viðeigandi stofnun og setja þeim tilsjónarmenn sem eiga meðal annars að fylgjast með því að skjólstæðingar þeirra séu ekki vistaðir á slíkri stofnun lengur en nauðsyn krefur. Kastljós upplýsti hins vegar að það var að engu haft, að minnsta kosti 14 ósakhæfir fangar, einstaklingar, fengu ekki umönnun eða hjúkrun við hæfi fyrir 1992 en voru ýmist vistaðir í fangelsi eða sendir úr landi, þar á meðal á illræmt réttargeðsjúkrahús í Noregi, Reitgjerdet í Þrándheimi. Jafnvel þótt þessir einstaklingar hefðu áður dvalið langdvölum á Kleppi vegna sjúkdóma sinna var þeim neitað um læknishjálp eftir dóminn og hreinlega vísað á dyr í heilbrigðiskerfi landsmanna. Það er svartur blettur á íslenskri heilbrigðissögu, sagði Ólafur Ólafsson, fyrrum landlæknir, í Kastljósi um ástandið áður en opnað var á Sogni.

Þegar heilbrigðisyfirvöld, ráðherrann Sighvatur Björgvinsson og landlæknir Ólafur Ólafsson, ákváðu að taka þessa einstaklinga heim til Íslands neituðu geðlæknar enn að taka við þeim og því varð til ný sjálfstæð réttargeðdeild á Sogni eftir gífurlegar deilur heima í héraði og í heilbrigðiskerfinu öllu. Fáfræði um geðsjúkdóma og fordómar gagnvart geðsjúkum réðu þar ferð en því miður virðist það svo við þessa upprifjun að það hafi ekki verið illa upplýstur almúginn sem fór þar fremstur í flokki heldur þeir sem hvað mest menntaðir voru í geðlæknisfræðum þeirra tíma.

Öllum má ljóst vera að það var ekki aðeins læknaeiðurinn sem brotinn var og beygður, eins og fyrrverandi landlæknir vék að, og 64. gr. hegningarlaga um viðeigandi vistun, heldur voru öll mannréttindi brotin á þessu fólki. Þess beið útlegð, frelsissvipting langt frá ættingjum og vinum, í ókunnu landi og í ókunnu málumhverfi þar sem það var jafnvel ólað niður á hverjum degi. Hér heima tók ekki betra við, alger einangrunarvist í eins fjandsamlegu umhverfi og hugsast getur fyrir fársjúkt fólk og án allrar læknisþjónustu.

Í ljósi þessarar ljótu sögu er mikilvægt að fjalla opinskátt um hvernig aðbúnaður ósakhæfra fanga er núna. Því spyr ég hæstv. velferðarráðherra hvernig réttindi þeirra sem sjúklinga eru tryggð um leið og öryggis þeirra og annarra er gætt. Ég spyr líka hversu margir slíkir ósakhæfir fangar eru í dag, karlar og konur.

Frú forseti. Það fer ekki hjá því að við þurfum líka að spyrja okkur sjálf hvernig þetta gat gerst. Hvaða skýringar eru á því að þessir varnarlausu einstaklingar fengu ekki vistun við hæfi allt fram til 1992? Norðmenn lokuðu Reitgjerdet 1978 og settu af stað ítarlega rannsókn á því sem þar fór fram og við höfum verið að gera upp fortíðina hvað varðar vistun barna og ungmenna á fyrri tíð. Því spyr ég: Hefur ráðherra hug á því að láta rannsaka hvað fór úrskeiðis hjá yfirvöldum heilbrigðis- og fangelsismála gagnvart ósakhæfum einstaklingum fram til 1992?