140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[15:28]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í öðru andsvari fór hv. þm. Álfheiður Ingadóttir í rauninni yfir þau mál sem spurt var um hér varðandi stóru pakkningarnar. Ég held einmitt að það sé afar mikilvægt að menn breyti þessu sérstaklega í byrjun því að þegar verið er að prófa ákveðin lyf er það oft þannig, maður hefur sjálfur lent í því, að lyf virka ekki, maður fær jafnvel höfuðverkjaköst eða eitthvað slíkt, og þá er eins gott að maður sitji ekki uppi með þriggja mánaða skammt sem er aðeins notaður í tvo, þrjá daga. Það er hluti af því og ein af mögulegum leiðum að spara fyrstu greiðslu og þá einmitt að minnka skammtana og spara með þeim hætti.

Hér var talið upp hverjir það eru sem greiða minna en aðrir, þ.e. börn, öryrkjar og ellilífeyrisþegar, en það má ekki gleyma því að atvinnuleitendur eru líka þar á meðal, mér finnst skipa mjög miklu máli að þeir séu taldir með.

Varðandi sparnaðinn að öðru leyti í lyfjum hefur náðst verulegur árangur með breytingum sem fyrrverandi heilbrigðisráðherrar hafa gert í samráði við Sjúkratryggingar Íslands. Mjög áhugaverð skýrsla frá Ríkisendurskoðun er um þá þróun hvernig mönnum hefur tekist að ná niður lyfjakostnaðinum. Við munum reyna að gera það áfram, ekki með þessari breytingu heldur almennt með því að fara í gegnum hvernig skammtar eru og hvaða lyf eru sett í forgang, að notuð séu samheitalyf þar sem það er hægt og stýrt með þeim hætti til sparnaðar. Ég hvet eindregið til þess og veit að skýrsla Ríkisendurskoðunar um lyfin verður tekin til umræðu.