140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

lög og reglur um erlendar fjárfestingar.

[15:33]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er að sjálfsögðu tilbúinn sem stjórnmálamaður að koma að umræðu um fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi og ég tel mjög mikilvægt að við tökum þá umræðu. Það er mikilvægt að við endurskoðum lög sem snúa að einkaeignarrétti á landi og á auðlindum vegna þess að þjóð í þrengingum stendur frammi fyrir þeirri hættu að missa þær úr hendi sér. Það skall hurð nærri hælum hér fyrr á tíð. Við skulum ekki gleyma því að árið 1894 var eignarhald á Geysi og Strokki selt úr landi. Það kom ekki aftur inn fyrir landsteinana fyrr en 1935.

Núna stöndum við frammi fyrir þeirri hættu að erlendir aðilar, hvort sem þeir heita Magma eða annað — ég hafði á orði að þeim aðila hefði verið leiðbeint niður í sænska (Forseti hringir.) kommóðuskúffu og ég vara við því að slíkt geti gerst aftur. Við skulum taka alvarlega umræðuna um þessi efni, um þau (Forseti hringir.) grundvallarmál hvernig við stöndum vörð um auðlindir Íslands. (Gripið fram í.)