140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[23:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna þar sem hann fór ítarlega og ágætlega á eigin forsendum í gegnum sýn sína til fjárlagagerðarinnar. Ég staldra fyrst við þörf hv. þingmanns fyrir að búa alltaf til einhvern pólitískan andlegan leiðtoga. Það liggur ekki í eðli okkar sjálfstæðismanna að búa okkur til þannig leiðtoga pólitískt, andlegan leiðtoga, þetta er dálítið rík þörf hjá þeim sem stunda trúboð í pólitík byggða á ákveðnum kennisetningum.

Mig langar að heyra aðeins meira frá hv. þingmanni um fangelsismálin sérstaklega. Það er samstaða um að vinna úrbætur í þeim, en mig langar að heyra afstöðu hv. þingmanns til fjármögnunar fangelsisins, hvaða leiðir eigi að fara í því, og einnig og ekki síður mat hans á því hvenær sú bygging sem á að fara í verði tilbúin til notkunar.

Svo langar mig að heyra örlítið í síðara svari við spurningu minni um þann þátt sem kom fram í fréttum sjónvarpsins í kvöld þar sem voru tilmæli frá formanni atvinnuveganefndar þingsins um að ríkissjóðurinn keypti upp Grímsstaðalandið. Megum við vænta þess við umræðuna hér að það komi fram tillaga um að ríkissjóður snari þar út háum fjárhæðum til að geta gengið til viðræðna um leigusamning við pólitískan og andlegan leiðtoga Samfylkingarinnar um þessar mundir?