140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:35]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Nú er lokið við að greiða atkvæði um breytingartillögur stjórnarmeirihlutans og þar horfir margt til framfara. Tvennt vil ég nefna, í fyrsta lagi hve vel fjárveitingavaldið ætlar að standa að því að Íslendingar virði skuldbindingar sínar á vettvangi Evrópuráðsins sem gefnar voru árið 2008 um að sporna gegn kynferðisofbeldi gegn litlum börnum.

Í öðru lagi er okkur nú að takast að setja niður deilur sem staðið hafa samfellt í hálfa öld um nýja fangelsisbyggingu fyrir landsmenn. Menn hafa spurt: Hver kemur til með að borga brúsann? Það gerum við, íslenskir skattgreiðendur. Á þessu ári verður lokið við alla hönnunar- og tæknivinnu í tengslum við nýja fangelsisbyggingu. Við gerum ráð fyrir að hefja framkvæmdir í árslok og að undir árslok 2014 verði þetta nýja (Forseti hringir.) fangelsi tekið í notkun. Þetta er mikið fagnaðarefni, tel ég vera.