140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil gera að umræðuefni þær tölur sem bárust frá Hagstofunni varðandi landsframleiðslu. Það eru mjög áhugaverðar tölur og ýmislegt sem kemur í ljós þegar menn rýna ofan í þann boðskap sem þar birtist.

Ég vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli á einum þætti þessa máls sem ég tel nauðsynlegt að við þingmenn höfum hugfastan, það er hver þróun fjárfestinga í atvinnulífinu er. Ég fékk sendar tölur frá Hagstofunni um það í morgun. Þegar litið er til hlutfalls atvinnuvegafjárfestinga af landsframleiðslu má sjá að á árunum 2009 og 2010 voru þær í sögulegu lágmarki. Þau ár var atvinnuvegafjárfestingin um 8 prósentustig.

Þegar litið er til fyrstu níu mánaða ársins sem nú er að líða er atvinnuvegafjárfestingin, samkvæmt þeim tölum sem Hagstofan gefur upp, 8,4%. Fyrstu níu mánuðina í fyrra var hún 7,7%. (Gripið fram í.) Hvað segja þessar tölur okkur? Þær segja okkur að vöxtur þjóðarframleiðslunnar er drifinn áfram einkum og sér í lagi af einkaneyslu og reyndar á stórauknum útflutningi á makríl á þriðja ársfjórðungi, en það er einkaneyslan sem skiptir miklu máli og þá er nauðsynlegt að skoða hvernig sú aukning hefur orðið í einkaneyslunni. Hún er til komin vegna þess að gerðir voru mjög háir kjarasamningar, það voru endurgreiðslur á vöxtum bæði frá Landsbankanum og frá ríkinu, það eru lánafrystingar og það eru úttektir á séreignarsparnaði. (Forseti hringir.) Það er ekki heilbrigður grunnur undir hagvöxt. Því þarf að breyta.