140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

virðisaukaskattur.

317. mál
[11:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningunni um hvort þessi mismunun milli innlendrar og erlendrar kvikmyndagerðar fengi staðist, að aðgangseyrir að innlendum kvikmyndum sé virðisaukaskattsfrír en ekki að erlendum.

Við gætum auðvitað farið út í undanþágur alveg villt og galið. Við gætum veitt skipasmíðaiðnaðinum undanþágur frá sköttum, við gætum veitt virkjunum undanþágur frá sköttum o.s.frv. til að örva þátttökuna, en það sem undanþágur gera er nefnilega mjög neikvætt þótt þær hafi jákvæð áhrif í að örva þessa starfsemi. Það sem gerist er að menn flytja verkefnin frá verkstæðunum þar sem er yfirleitt hagkvæmara að vinna þau og yfir á byggingarstaðinn. Til dæmis gluggasmíði, það getur verið mjög skynsamlegt að smíða glugga á einum stað en með þessari ráðstöfun skekkist sú hagkvæmni þannig að það borgar sig að smíða gluggana handvirkt á vinnustað af því að virðisaukaskatturinn er þá felldur brott. Menn þurfa að fara mjög varlega í svona undanþágur vegna þess að þær skekkja allt kerfið. Reyndar er allt kerfið komið í frostmark í dag og er þar af leiðandi orðið mjög skekkt. Ég held að þær ráðstafanir sem hér er verið að framlengja búi til óhagkvæmni í kerfinu sem menn þurfa að vera mjög á tánum yfir að verði ekki meiri.

Ég legg til við hæstv. ráðherra að hann lækki skatta eins og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til og hætti þessari vitleysu, sem ég vil kalla, að halda að menn geti skattlagt sig út úr kreppunni. Það sem við sjáum er eingöngu brottflutningur fólks til útlanda og að fólk hrannast í háskólana til að (Forseti hringir.) minnka atvinnuleysið.