140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

verðbréfaviðskipti.

369. mál
[14:11]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég tjái mig um efri hluta sokkabuxnanna eða neðri í þessu andsvari. Hv. þingmaður tæpir á máli sem var verulegt vandamál fyrir hrun, sem er sniðganga yfirtökureglnanna. Mér er til dæmis ofarlega í minni eitt tilvik þar sem aðili komst yfir meira en 40% hlut í skráðu félagi. Yfirtökumörkin voru miðuð við 40% samkvæmt lögunum eins og þau stóðu þá og lá því beint við að viðkomandi yrði yfirtökuskyldur. En svo, hókus, pókus, var skyndilega haldinn hluthafafundur í félaginu. Þá var hann kominn niður í 39,9% en Landsbankinn í Lúxemborg orðinn eigandi að mismuninum. Samt fór aðilinn með 39,9% hlutinn með atkvæðisrétt fyrir Landsbankann í Lúxemborg einhverra undarlegra hluta vegna. Allir máttu sjá að hér var um skipulega sniðgöngu að ræða. Það er mjög mikilvægt að við forðumst svona dæmi í framhaldinu. Þess vegna komum við inn með þessa breytingu. Við viljum að löggjöfin og utanumhaldið sé þannig að ekki verði hægt að líta svo á að Kauphöllin verði bara musteri ræningja heldur þvert á móti raunverulegt markaðstorg þar sem almenningur getur verið öruggur um að ekki sé gengið á hagsmuni almennings og að gætt sé meginreglna og allra reglna til að verja rétt almennra hluthafa í félögum.