140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

eftirlit með skipum.

347. mál
[17:33]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 47/2003, um eftirlit með skipum.

Með frumvarpi þessu legg ég til að skipagjöld hækki. Tilefnið er hækkun verðlags undanfarin ár en skipagjöld hafa ekki fylgt þeirri þróun. Gagnstætt því sem ég gat um áðan varðandi vitagjöldin er um verulega hækkun að ræða, um 75% hækkun. Skýringin er sú að þessi gjöld hafa ekki verið hækkuð frá því nánast í upphafi aldarinnar. Eins og ég nefndi er um að ræða 75% hækkun og er það í samræmi við hækkanir á vísitölu neysluverðs frá nóvember 2002 þegar frumvarp til laga um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, var lagt fram, til október 2011, auk hækkana í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga fyrir árið 2012. Á árinu 2011 voru álögð skipagjöld 33.747.150 kr. Verði gjöldin hækkuð um 75% má áætla að álögð skipagjöld verði á árinu 2012 59.057.513. Gjöld samkvæmt frumvarpinu leggjast jafnt á alla skipaeigendur sem eiga skráð skip á Íslandi.

Það er talsverð hækkun en hún er til komin vegna þess að menn hafa ekki látið hækkunina fylgja verðlagi á undanförnum árum. Þess vegna er um umtalsverða hækkun að ræða sem ég tel engu að síður mjög mikilvægt að nái fram að ganga.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar.