140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

fsp. 5.

[14:09]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þegar svokölluð skötuselsákvæði voru samþykkt með lögum frá Alþingi, reyndar sem bráðabirgðaákvæði til eins árs, fyrst fyrir árið 2009–2010 og svo aftur fyrir árið 2010–2011, varð heimilt að leigja út hluta af viðbótum í aflaheimildum í skötusel. Gjaldið sem kæmi inn átti að renna til nýsköpunar í atvinnulífi og til rannsókna og þróunar á landsbyggðinni. Að þessir fjármunir skyldu renna þangað var í sjálfu sér hluti af þeim pakka sem þá var samþykktur á Alþingi. Þetta ákvæði var síðan framlengt á vorþingi í júní síðastliðnum og átti að gilda áfram til bráðabirgða til eins árs, þar til endanlega yrðu sett lög um stjórn fiskveiða sem tækju á málinu til frambúðar. Skötuselspeningarnir, og reyndar líka leiga af svokölluðum aflaheimildum til aðila í ferðaþjónustu, áttu að renna í þessi verkefni.

Það er alveg hárrétt, þetta hefur verið afar þýðingarmikið fyrir minni rannsóknarsetur og þróunarstarfsemi úti um land. Ég legg áherslu á að þetta sé óbreytt áfram, það er mín skoðun að svo eigi að vera. Ég minni á að þegar ríkisstjórnin fór á fund á Ísafirði fyrr á árinu til að ræða málefni Vestfjarða, lögðu fulltrúar allra rannsóknar- og þróunarstöðvanna einmitt þunga áherslu á hversu vel þessir skötuselspeningar hefðu komið sér, (Forseti hringir.) þeir hefðu skipt sköpum fyrir rannsóknar- og þróunarstarf á þessum svæðum. Ég legg því áherslu á að svo (Forseti hringir.) verði áfram.