140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[16:05]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er akkúrat málið. Sú stefna sem ríkisstjórnin hefur haft uppi í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar hefur leitt það af sér að þúsundir einstaklinga hafa því miður þurft að hverfa af landi brott til að sækja sér atvinnu. Það er óásættanlegt að horfa upp á það atvinnuleysi sem við glímum við, að við borgum yfir 20 milljarða á ári hverju í atvinnuleysisbætur þegar tækifærin eru til staðar í undirstöðuatvinnugreinum eins og sjávarútveginum sem hefur verið haldið í heljargreipum ríkisstjórnarinnar í algjörri óvissu núna í á þriðja ár og í orkugeiranum þar sem við hefðum getað farið í margvíslegar framkvæmdir sem hefðu getað skapað hundruð eða þúsundir starfa. Viðhorf að minnsta kosti hluta ríkisstjórnarinnar gagnvart beinni erlendri fjárfestingu er að vera á móti henni. Það er ekki eðlilegt að við borgum gríðarlega háar upphæðir í Atvinnuleysistryggingasjóð og að tekjur samfélagsins dragist saman. Þessari stefnu viljum við framsóknarmenn snúa við.