140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[22:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar bara gegn sparnaði. Gallinn við sparnað er að fjármunir geta tapast en það eru þó til einhverjir fjármunir. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér til dæmis ástandið á Ítalíu þar sem grátandi velferðarráðherra var að lækka bætur í gegnumstreymiskerfinu vegna þess að þar er enginn að borga. Í gömlu Ítalíu, gamla Frakklandi, getur enginn borgað, það er sami hópurinn, þessir fáu sem eiga að halda uppi gamla fólkinu og þar eru ekki fjórir, sex, átta eða tíu á hvern eldri borgara eins og var. Þeir eru orðnir mjög fáir, ég man ekki nákvæmlega tölurnar, en þegar menn byrjuðu með gegnumstreymiskerfið voru þeir kannski tíu, jafnvel fleiri, 10–15 sem greiddu fyrir hvern ellilífeyrisþega. Nú eru þeir orðnir sárafáir og þeir eiga að halda uppi öllu kerfinu. Þessi röksemdafærsla gengur bara ekki upp.

Við erum reyndar bæði með gegnumstreymiskerfi og sjóðsmyndunarkerfi og við erum að greiða allra handa bætur úr almannatryggingakerfinu. En það sem hv. þingmaður gerir er að tala gegn sparnaði því að sparnaður getur tapast. En ég get ekki séð að (Forseti hringir.) gegnumstreymiskerfið sé að virka neins staðar.