140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[16:26]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom víða við í ræðu sinni og benti á þá galla sem fylgja skattstefnu ríkisstjórnarinnar en ég veit ekki hversu margar ræður þarf að halda til að vinstri menn skilji að þetta er ekki hægt að framkvæma svona.

Frá því að þessi vinstri ríkisstjórn kom til valda og fór að boða skattahækkanir hendir hún alltaf fram einhverju stóru og miklu og svo dregið aðeins í land. Þegar búið er að fara aðeins yfir mesta ruglið og vitleysuna í þessu draga menn aðeins í land. Þetta hefur alltaf verið gert svona áður en þetta kemur til umræðu í fjölmiðlunum. Það er eins og að þetta sé einhvern hvati til þess að fólk halli sér aftur í sætum sínum og segi: „Úff, það var þó ekki meira en þetta“ — þegar búið er að draga úr mestu vitleysunni.

Mig langar að minnast á það sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni. Ein mesta öfugmælavísa þessarar vinstri stjórnar er kynjuð fjárlagagerð, en sumir hv. þingmenn hafa talað um það í áraraðir og áratugi að þeir séu femínistar eins og kallað er, og einmitt þegar kemur að því að vinstri stjórn stýrir landinu er það helsta markmið hennar að skera þannig niður hjá ríkinu að það sé nánast alveg öruggt að konur séu reknar úr störfum. Síðan fara þeir þá leið, eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni, að skattleggja með þessum hætti og það mun hafa í för með sé enn frekari uppsagnir hjá konum.

Ég velti því fyrir mér, af því nú er verið að eyða miklum peningum í ráðuneytunum í það að mynda kynjaða hagstjórn, hvort það geti verið að ríkisstjórnin vilji ganga þannig fram að það sé ekki nokkur einasta kona í vinnu loksins þegar hægt verður að vinna eftir kynjaðri hagstjórn og svo sé hægt sé að ráða þær aftur þegar (Forseti hringir.) afleiðingarnar koma í ljós og þá geti hún bent á kosti (Forseti hringir.) þess að vera með kynjaða fjárlagagerð.