140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

virðisaukaskattur.

317. mál
[14:26]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál er þannig vaxið að sumt af því er líklega eðlilegt framhald af undanþáguákvæðum virðisaukaskatts sem hafa verið til staðar. Ég ætla ekki að tilgreina það hér. Síðan er hér líka verið að ganga fram í kjölfar dóms frá Hæstarétti um að þeir samningar sem áttu við um fjármögnunarleigur stæðust ekki, að í raun væri um lánasamninga að ræða sem þýðir að það þarf að öllu óbreyttu að endurreikna alla þá samninga vegna þess að það er mismunandi framkvæmd á virðisaukaskatti.

Minni hlutinn er fylgjandi því prinsippi að reynt sé að einfalda og ganga eins hratt fram og mögulegt er í þessu máli en það verður að segjast eins og er að ekki gafst mikill tími í nefndinni til að kalla eftir umsögnum eða fara vandlega yfir það mál. Það er ekki einfalt og við vonum bara að sú aðferð sem þarna er farið fram með standist skoðun. Við fengum svo sem að vita það í nefndinni að hún er ekki óumdeild. Við höfum þar af leiðandi ekki þvælst fyrir þessu málefni með neinum hætti en getum ekki tekið ábyrgð á því. Ég held að þetta sé enn eitt dæmið um það að vinnulagið í hv. efnahags- og viðskiptanefnd er ekki gott og er það ekki eina nefndin sem þannig er fyrir komið. Ég er ekki að gagnrýna forustu nefndarinnar sérstaklega, alls ekki, heldur vek ég fyrst og fremst athygli á því að vinnulagið í kringum þessi síðustu fjárlög er ekki til þess fallið að maður sé mjög öruggur um að við vinnum hlutina eins og best verður á kosið. Reyndar er það alls ekki og birtingarmyndin sýnir kannski hvernig við höfum unnið þessi og önnur mjög stór mál á örfáum dögum. Við skulum vona að það verði gengið frá þessu með þeim hætti að það hafi ekki neinar afleiðingar í för með sér.