140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:02]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Undanfarin ár verða seint sveipuð dýrðarljóma í sögubókunum. Haustið 2008 upplifði íslenska þjóðin eitthvert mesta efnahagsáfall seinni tíma og í framhaldinu hrökkluðust þáverandi stjórnvöld frá völdum að kröfu fólksins sem stóð sólarhringum saman á frosnum Austurvelli. Við tók fyrsta hreina vinstri stjórn Íslandssögunnar, en þessi stjórn hefur setið bráðum í þrjú ár þannig að það er ekki úr vegi að staldra við og horfa um öxl, ekki síður en horfa fram á veginn.

Allar ríkisstjórnir hefðu þurft að taka erfiðar ákvarðanir í því ástandi sem var hér fyrir þremur árum, en áherslumunurinn endurspeglar helst muninn á vinstri og hægri. Það var ekki erfitt að ímynda sér ríkisstjórn sem hefur tekist á við gríðarlegan halla ríkissjóðs með því t.d. að selja auðlindir landsins á brunaútsölu, einkavæða velferðarkerfið, hækka skatta á alla nema mögulega stóreigna- og hátekjufólk. Sú stjórn sem nú situr valdi aðra leið. Hún stóð vörð um velferðarkerfið og hefur engar auðlindir látið af hendi. Við höfum forðast að ganga á samfélagslega höfuðstólinn sem komandi kynslóðir eiga að geta gengið að. Sú stjórn sem nú situr valdi líka að breyta skattkerfinu á þann hátt að þeir tekjulægstu kæmu best út úr breytingunum. Hér hefur skattkerfið verið notað sem tæki til að auka jöfnuð.

Við megum ekki gera lítið úr því hversu erfiður niðurskurðurinn hefur verið og hversu illa kaupmáttarskerðingin kemur við heimilin í landinu. Efnahagshrunið á Íslandi hefur áhrif á hverjum degi á hvert einasta heimili í landinu. Það breytist ekki þótt Morgunblaðið setji hrunið í gæsalappir. En við megum ekki heldur gleyma því hvernig ástandið hefði getað verið ef önnur öfl hefðu ráðið hér för.

Frú forseti. Mikill árangur hefur þegar náðst við endurreisn samfélagsins, um það er tæpast deilt, en fram undan er eitt allra mikilvægasta verkefni núverandi ríkisstjórnar, það er að einhenda sér í að styðja enn betur við atvinnulífið í landinu, hlúa að því sem hér er, efla möguleika til nýsköpunar og vaxtar og skapa skilyrði til þróunar í þágu sjálfbærni og græns hagkerfis, vinna að því að atvinnuvegirnir fái nú loksins að njóta jafnræðis í Stjórnarráðinu. Hinar hefðbundnu greinar, sjávarútvegur og landbúnaður og auðvitað iðnaður í stóru og smáu, halda sínum sessi, en jafnhliða þeim verður nú nýsköpun, ferðaþjónusta og aðrar vaxtargreinar með sterkari stöðu en áður hefur verið.

Það er bæði mikilvægt og jákvætt að Stjórnarráðið endurspegli breyttar áherslur í atvinnulífi þjóðarinnar og þar sé unnt að beina sjónum sérstaklega að vaxtargreinum og þeim áherslum sem haldast í hendur við heilbrigðan hagvöxt og sjálfbæra þróun, áherslur þar sem grænt hagkerfi verður í öndvegi og við drögum markvisst úr vistspori Íslands.

Samhliða þessum breytingum verður betur búið um umhverfismálin í Stjórnarráðinu og sjónum þar með beint að mikilvægi þess að allur vöxtur í hagkerfinu, ný störf og aukið umfang, byggi á forsendum framtíðar, að allar ákvarðanir séu teknar af fullri ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum og auðlindum sem við höfum að láni frá börnunum okkar. Á þær auðlindir má ekki ganga og þar þarf að stíga varlega til jarðar í hverju skrefi.

Samsetning vinnumarkaðarins gerir sífellt meiri menntunarkröfur og þar er líka eitt okkar brýnasta verkefni. Sífellt kemur í ljós að gríðarlegir möguleikar liggja í skapandi greinum, listum, menningu, kvikmyndagerð, bókmenntum, nýsköpun og hvers konar sprotastarfsemi, atvinnulíf af því tagi er meira í sátt við náttúru og umhverfi en hefðbundin áhersla á stóriðju og risaframkvæmdir.

Sá söngur sem Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins hafa viðhaft undanfarin missiri er verulegt umhugsunarefni, hann snýst í raun um að tala niður áherslur stjórnvalda, allt sem gert er, en hjá stjórnvöldum eru áherslur félagslegs jöfnuðar og áherslur velferðar í öndvegi. Þessi hagsmunaöfl, Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins, hafa alltaf tekið sér stöðu með forréttindastéttum í landinu og auðmönnum þessa lands og pólitískur armur þeirra í þinginu er Sjálfstæðisflokkurinn. Það er sá flokkur sem mesta ábyrgð ber á því risavaxna verkefni sem þessi ríkisstjórn og öll alþýða manna, atvinnulífið og sveitarfélögin, hafa verið að glíma við allt frá efnahagshruninu sem hér varð í kjölfarið á óvenjugrímulausri hægri stefnu stjórnvalda um árabil, stefnu sem snerist um að draga úr eftirliti, einkavæða, ýta undir misskiptingu og láta markaðinn og peningahyggjuna ráða för í einu og öllu. Sá flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur ekki einu sinni beðist afsökunar ekki á neinu. Hann heldur sínu striki og leyfir sér jafnvel, mér liggur við að segja vogar sér, að halda því fram að honum sé treystandi fyrir efnahagsstjórn landsins. Flokkurinn hefur ekki gengið í gegnum neina endurskoðun heldur teflir fram blygðunarlausri sjálfsupphafningu í anda fyrri foringja þar sem engra spurninga er spurt, þar sem valdinu er beitt í þágu þeirra ríku og sérhagsmunanna, alltaf.

Frú forseti. Fram undan eru betri tímar, tímar þar sem ríkisstjórnin og þingið takast á við krefjandi verkefni í þágu framtíðar, stjórnarskrárendurskoðun, endurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins, rammaáætlun og önnur þjóðþrifamál. Við búum í landi þar sem tækifærin eru mikil, gríðarlegar auðlindir, mikill sköpunarkraftur og aukin áhersla á menntun og menningu. Sköttum er beitt til jöfnunar en líka til að jafna kjör og auka á umhverfis- og náttúruvernd. Ríkisstjórn Íslands leggur áherslu á þessi sjónarmið, jöfnuðar- og umhverfis- og kvenfrelsissjónarmið, sem þurfa að ráða ríkjum, líka eftir næstu kosningar allnokkur kjörtímabil. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)