140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

Vetraríþróttamiðstöð Íslands á Akureyri.

286. mál
[19:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að til standi að kynna þennan samning væntanlega á næstu mánuðum eins og ég skildi það. Það er afar jákvætt og ég hvet hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra til að gera það sem allra fyrst, ég held að það sé mjög mikilvægt að fá þessi mál á hreint.

Ég verð samt að geta þess að það eru ótrúlega mikil tækifæri fólgin í þessari uppbyggingu fyrir norðan og ekki aðeins hvað varðar íþróttahlutann. Vert er að nefna að aðstaða fyrir fatlaða hefur snarbatnað og er til fyrirmyndar hvernig staðið er að málum hvað þann þátt varðar. En svo eru það líka ferðamálin sem snúa að mennta- og menningarmálaráðherra. Heimamenn hafa horft til þess að reyna að fá fleiri erlenda ferðamenn til að koma og kynna sér svæðið. Jafnvel þó að við næðum aðeins hálfu prósenti af hlutdeild í ferðamannamarkaðnum mundi það skila gríðarlegum tekjum til samfélagsins ekki aðeins fyrir norðan heldur inn í ríkissjóð. Ég fagna því að til standi að gera þennan samning og ég fagna líka góðum vilja sem ég greini hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og mun að sjálfsögðu halda henni vel við efnið í þessu máli.