140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[18:25]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé mig knúna til að gera athugasemd við þá orðræðu sem hv. þm. Árni Johnsen hefur uppi. Ég vil biðja menn þess lengstra orða að ræða þessi mál af virðingu fyrir börnum, af virðingu fyrir þeim foreldrum sem þegar eru í hópi þeirra sem hafa átt börn, sem njóta þeirrar gæfu að eiga börn með aðstoð annarra, af virðingu fyrir þeim sem hafa gefið börn, af virðingu fyrir þeim sem hafa þegið börn, af virðingu fyrir þeim sem hafa fengið gjafaegg eða gjafasæði, notið tæknifrjóvgunar eða staðgöngumæðrunar, og tala ekki niður til þeirra.

Börn eru viðkvæmar sálir. Hv. þingmaður segir með réttu að þau séu guðs gjöf og telur sig þurfa að verja þann siðferðisgrunn sem við stöndum hér á. Ég hygg að hinn kristni siðferðisgrunnur sé hv. þingmanni tamur. Því vil ég vitna í Matteusarguðspjall, 7. kafla, 1. vers, þar sem er að finna stóran hluta af þeim siðferðisgrunni sem við stöndum á, hv. þingmaður:

„Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmd.“

Það er ekki maklegt að líkja löngun fólks til þess að eignast barn við hégómleika. Það er ekki maklegt að líkja börnum, óskabörnum, við gæludýr. Og það er ekki maklegt að líkja mæðrum við vændiskonur í þessu sambandi. Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmd.